Mál Carlee Russell og leitin að henni heltók Bandaríkin síðustu daga, en hún hvarf í 49 klukkustundir eftir að hún sagðist hafa rekist á smábarn á förnum vegi. Russell hefur nú stigið fram og viðurkennt sannleikann í málinu.
Carlethia „Carlee“ Nichole Russell, sem er 25 ára, hvarf 13. júlí eftir að hafa hringt í neyðarnúmerið 911 um klukkan 21.34. Í símtalinu sagðist hún hafa séð smábarn á aldrinum þriggja til fjögurra ára gamalt gangandi við suðurakbraut Interstate 459 nálægt Birmingham í Alabama. Russell hringdi síðan í fjölskyldumeðlim sinn, en samtalið slitnaði.
Sjá einnig: Mannránið sem skekur Bandaríkin – Er Carlee Russell öll sem hún er séð?
Eftir tveggja daga umfangsmikla leit að henni um allt fylkið gekk Russell berfætt og illa til reika inn á heimili sitt og var hún flutt á sjúkrahús til skoðunar.
Í viðtali við lögregluna eftir heimkomuna hélt hún því fram að maður með appelsínugult hár hefði komið út úr nærliggjandi skógi til að athuga með smábarnið. Hefði maðurinn tekið Russell upp og látið hana fara yfir girðingu sem var nálægt. Sagði hún manninn síðan hafa þvingað hana inn í bíl og sagðist hún muna eftir því að hafa verið inni í 18 hjóla bifreið. Hún hélt því einnig fram að eftir að hafa verið bundin fyrir augu og látin afklæðast hafi hún getað sloppið úr bílnum, en maðurinn hefði náð henni og sett hana aftur í bílinn.
Núna, tíu dögum eftir að Russell sneri heim að nýju, hefur hún gefið út yfirlýsingu og í henni viðurkennir hún að hafa skáldað allt atvikið.
Í tölvupósti til lögreglunnar í Hoover segir Emery Anthony, lögmaður Russell,: „Skjólstæðingur minn stendur ein að þessu máli, það er enginn samverkamaður. Skjólstæðingur minn var ekki með neinum á þeim tíma sem atvikið átti að hafa átt sér stað og leit að henni stóð yfir. Skjólstæðingur minn biður samfélagið allt, sjálfboðaliðana sem leituðu að henni, lögregluna í Hoover, vini sína, fjölskyldu og aðra sem hlut eiga að máli afsökunar á gjörðum sínum.“
Þrátt fyrir að ljóst sé að atvikið var allt skáldskapur Russell eru yfirvöld engu nær um hvað gerðist á þeim 49 klukkustundum sem Russell var saknað og hvar hún hélt til á þeim tíma. Er nú til skoðunar hvort eigi að ákæra hana fyrir blekkingarnar.
„Við vitum ekki enn hvað gerðist á þessum 49 klukkustundum, hvar hún var. Fékk hún einhverja hjálp? Við höfum ekki hugmynd,“ segir lögreglustjórinn Nicholas Derzis við fjölmiðla.
„Fókusinn var á að finna hana og koma henni heim heilli á húfi. Hún komst heim. Við erum mjög ánægð með þá niðurstöðu. Líkt og ég gaf út síðasta miðvikudag sýndi rannsókn okkar að við vorum farin að hallast að því að um gabb væri að ræða.“
Þrátt fyrir leit fundust engar vísbendingar um að smábarn hefði gengið við veginn, líkt og Russell hélt fram.