fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Segir foreldra sína útilokaða frá fermingarathöfn á Tálknafirði – „Erfitt að horfa á móður mína vera leiða og gráta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 30. maí 2023 11:00

Tálknafjarðarkirkja

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Marinósson hefur greint frá því að foreldrum hans, Marinó og Freyju, sem eru bændur á Eysteinseyri, hafi verið sagt að halda sig fjarri fermingarathöfn sem fram fór í Tálknafjarðarkirkju síðastliðinn laugardag. Marinó er meðhjálpari við kirkjuna og Freyja situr í sóknarnefnd. Tilefnið er fjandskapur tveggja manna út af fremur litlu tilefni, að virðist.

Ragnar birti eftirfarandi pistil um málið á Facebook-síðu sinni:

„Föstudaginn 26. maí síðastliðinn kom sóknarprestur til foreldra minna og tilkynnti þeim að þau væru ekki velkomin í fermingarathöfn sem átti að fara fram daginn eftir, laugardaginn 27. maí. Feður barna sem átti að ferma sögðust ætla að segja sig úr Þjóðkirkjunni ef þau myndu mæta og að ef að það yrði ekki farið að þeirra ósk þá yrðu læti. Ekki veit ég hverskonar læti það eru. En hótun er það engu að síður.

Foreldrar mínir eru mennsk. Þau eru alls ekki fullkomin. Ég geri mér grein fyrir þeirra brestum og þarf sjálfur að takast á við þá í mínu lífi. En þau eru gott fólk sem hafa gefið mikið af sér til samfélagsins. Eitt af fjölmörgu af því sem þau hafa gefið til samfélagsins telst til kirkju okkar Tálknfirðinga. Pabbi hefur verið meðhjálpari í u.þ.b. 30 ár. Mamma mín hefur starfað í sóknarnefnd nokkrum árum skemur en það. Ég veit ekki um neinn einstakling í sveitarfélaginu mínu sem þykir jafn vænt um kirkjuna sína eins og þeim. Vinnan og fjármagn sem þau hafa lagt til kirkjunar eru þakkarverð. Eftir alla þeirra vinnu í gegnum árin er þeim ýtt til hliðar af mönnum sem mæta sársjaldan í messur. Foreldrar mínir og við systkinin erum miður okkar.

Ef einhver góð og gild ástæða er fyrir því af hverju foreldrar mínir ættu ekki að mæta í þessa fermingarmessu þá höfðu foreldrar heilt ár til að gera eitthvað í málinu. Maður veltir hreinilega fyrir sér hver réttindi sjálfboðaliða og starfsfólks í kirkjustarfi á Íslandi séu? Getur hver sem er sagt prestinum hverjir megi mæta í messur og aðra þjónustu hjá kirkjunni og hverjir ekki?

Það reynir oft á að búa í litlu sveitafélagi. Ég er kominn með upp í kok á að horfa á ýmiskonar andlegt ofbeldi og segja ekkert. Ég vil frekar lenda í leiðindum við að benda á ofbeldi og óréttlæti heldur en að sitja hjá eins og aumingi.“

Tófuskytterí og vegghleðsla

DV ræddi málið við Ragnar sem sagðist aðspurður botna lítið í þeim deilum sem eru tilefni þessa fjandskapar út í foreldra hans. „Ég stend eiginlega á gati því foreldrar mínir voru að ala mig upp og raunar í dag líka þá hafa þau hlíft mér og systkinum mínum við því sem er í gangi, við erum bara sjálfstæðar persónur, og ég er þakklátur fyrir það. En eftir því sem ég kemst næst þá snýst þetta hjá öðrum manninum um það að pabbi hafi staðið hann að því fyrir nokkrum árum að skjóta tófu á hans landi. Hitt er tengt vegghleðslu við kirkju sem fór í framkvæmd fyrir nokkrum árum.“

Ragnar er mjög ósáttur við hvernig sóknarpresturinn, Kristján Arason, tók á málinu. „Þetta er klúður hjá prestinum sem vissi þetta fyrir löngu. Hann boðar pabba samt á æfingu daginn fyrir, ásamt öllum börnum og foreldrum í kirkjunni, þar sem farið var yfir hlutina fyrir athöfnina. Þar mætir pabbi og veit ekkert hvað er í gangi. Fer svo heim eftir æfingu. Síðan hefur presturinn samband og segir þeim að þau séu ekki velkomin í kirkjuna. Ég hringdi í prestinn út af þessu, ég skammaði hann ekki en ég tjáði honum að hann hefði valdið mér gríðarlegum vonbrigðum. Ég er sjálfur fyrir löngu búinn að segja mig úr þjóðkirkjunni, trúi bara á sjálfan mig og aðra, en ég lifi eftir þessum góðu gildum sem kristileg gildi eru, og ég sagði við prestinn að þarna hefði hann klikkað sem manneskja. Ég hefði aldrei farið í þessa messu eða fermingarveislurnar en ég veit að systur mínar ætluðu að mæta. Allt í einu er maður óvelkominn.“

Sjá einnig: Fjölnir stígur fram í hitamálinu á Tálknafirði 

Ragnar segir málið vera þungbært fyrir foreldra hans og sé hluti af lengri sögu:

„Mamma og pabbi hafa verið undir einelti, mamma mín síðan hún var barn.“ Ragnar segir föður sinn með þykkari skráp en móðurina og hefur ekki áhyggjur af honum, en: „Það er erfitt að horfa á móður mína leiða og gráta. Hún hefur ekki gert neinum neitt.“

Ragnar segir margt skrýtið og mótsagnakennt í þessu máli:

„Þetta snýst um einhverja tófu og einhvern vegg. Þessum tveimur mönnum fannst ekki vandamál í sömu viku að senda börnin sín til foreldra minna, sem eru bændur, til að kynna þau fyrir sveitalífinu, eins og þau hafa gert í 20-30 ár, halda á lömbum, taka myndir og þess háttar. Tengdamóðir annars þessara manna vinnur hjá mér og er miður sín yfir þessu en þeim fannst ekkert óeðlilegt að spyrja hvort fyrirtæki mitt myndi lána kaffikönnur fyrir veisluna.“

„Ég lagði þetta í hans hendur“

DV hafði samband við Kristján Arason sóknarprest og segist hann ekki hafa meinað Marinó að sækja messuna. Hann hafi hins vegar skýrt honum frá þeirri afstöðu tveggja manna, að óska þess að hann þjónaði ekki sem meðhjálpari við athöfnina. Hann hafi lagt það í hans hendur hvernig við því skyldi bregðast.

„Höfum það á hreinu að þetta er messa í kirkjunni og það er engum meinað að mæta, það verður aldrei,“ segir Kristján. „Ég lagði þetta í hans hendur,“ segir hann ennfremur og bætir við að honum þyki þær deilur sem eru í gangi í þessu samfélagi mjög sorglegar og hann, ásamt fleirum, ætli að gera sitt besta til að sætta deiluaðila.

Kristján segist hins vegar ekki vita hvernig hann hefði getað brugðist öðruvísi við í þessu máli. Tekið skal fram að óvild mannanna beinist ekki að móðurinni, Freyju, sem situr í sóknarnefnd. „En eðlilega fylgir fólk sínum maka,“ segir Kristján, en Freyja var ekki viðstödd athöfnina. Kristján ítrekar harm sinn vegna deilnanna á Tálknafirði en hann ætlar að reyna sitt besta til að ná fram sáttum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi