fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Íris gagnrýnir skipan Karls Gauta – „Heppileg og smekkleg ráðstöfun eftir þá kvenfyrirlitningu og almennu mannfyrirlitningu sem mér og fleirum var sýnd á Klaustursbar“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 29. mars 2023 20:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur skipað Karl Gauta Hjaltason í embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum frá og með 1. apríl 2023.

Þetta er í annað sinn sem Karl Gauti er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, því hann var sýslumaður og lögreglustjóri þar frá 1998 til 2014.

Sitt sýnist hverjum um skipun Karls Gauta, því hann er einn sexmenninga í Klaustursmálinu svonefnda, þar sem Bára Halldórsdóttir tók upp samtal sex þingmanna á barnum Klaustur í nóvember 2018.

Ein þeirra sem hefur tjáð sig um skipan Karls Gauta er Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum:

„Ég sem bæjarstjóri mun auðvitað vinna með þeim lögreglustjóra sem réttilega er skipaður til starfa hér í Eyjum hverju sinni. Dómsmálaráðherra hefur væntanlega komist að þeirri niðurstöðu, eftir vandlega íhugun, að þetta sé heppileg og smekkleg ráðstöfun eftir þá kvenfyrirlitningu og almennu mannfyrirlitningu sem mér og fleirum var sýnd á Klaustursbar hér um árið. Þar var hinn nýskipaði lögreglustjóri þátttakandi.“

Ummæli féllu um Írisi á Klausturbar

Í samtali sexmenningana lét Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, ummæli falla um Írisi: „ Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“

Karl Gauti sendi frá sér yfirlýsingu á sínum tíma þar sem hann sagðist ekki hafa látið neitt siðferðislega ámælisvert falla á Klaustri. „Mér þykir leitt að hafa setið þennan fund alltof ­lengi en sjálfur lagði ég ekk­ert það orð í belg sem talist getur sið­ferð­is­lega ámæl­is­vert.“

Formaður bæjarráðs telur betra að fella embættið niður

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, virðist jafnlítið hrifinn og bæjarstjórinn. „Staðan: Ef ske kynni vera að kynferðisbrot verði framið á þjóðhátíð verður það einn af klausturskóngunum sem mun hafa umsjón með rannsókn málsins,“ skrifar Njáll í færslu á Facebook. Hann spyr hvort ekki hefði verið réttara að leggja embættið niður.

Fimm vildu stöðuna

Fimm sóttu um stöðuna, auk Karls Gauta voru það: Arndís Bára Ingimarsdóttir, aðstoðarsaksóknari, Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðarsaksóknari, Kristmundur Stefán Einarsson, aðstoðarsaksóknari og Sigurður Hólmar Kristjánsson, aðstoðarsaksóknari.

Karl Gauti lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1989 og hlaut réttindi héraðsdómslögmanns árið 1996. Hann starfaði sem dómarafulltrúi hjá bæjarfógetum á árunum 1989 til 1992 og fulltrúi og síðar staðgengill hjá embætti sýslumannsins á Selfossi frá 1992 til 1998. Hann var sýslumaður og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum frá 1998 til 2014 og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins frá 2014 til 2016.

Karl Gauti hefur átt sæti í almannavarnanefnd Vestmannaeyja og stjórn fræðslu- og starfsmenntunarsjóðs lögreglu. Þá var Karl Gauti settur sýslumaður á Hólmavík hluta úr sumri árið 1996 og settur lögreglustjóri í Reykjavík, rannsóknarlögreglustjóri og sýslumaður í Vestmannaeyjum til að rannsaka einstök sakamál. Auk þess hefur Karl Gauti setið í tveimur starfshópum á vegum innanríkisráðuneytisins í málefnum sem tengjast lögreglu. Karl Gauti var kjörinn á þing árið 2017 og sat sem þingmaður til ársins 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu