fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fyrrverandi formaður VM segir félagið hugsanlega orðið „spilltasta stéttarfélag landsins“ – Segir stjórnina í feluleik

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. mars 2023 17:30

Mynd/ Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna, telur að félagið sé mögulega orðið „spilltasta stéttarfélag landsins“. Hann vekur athygli á þessu í grein sem hann skrifaði og birti hjá Vísi. Sakar hann núverandi formann, Guðmund Helga Þórarinsson, um að hafa farið fram með lygar í fjölmiðlum.

„Það er sorglegt að sjá stéttarfélagið mitt VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna vera hugsanlega orðið spilltasta stéttarfélag landsins. Þau vinnubrögð sem hafa verið stunduð í félaginu síðan núverandi formaður tók við eru með ólíkindum. Lög ítrekað brotin, sérstaklega hvað varðar meðferð á fjármunum félagsins auk sameiningar inn í annað félag sem félagsmenn hafa ekki fengið kynningu á.

Formaðurinn komið fram í fjölmiðlum og sagt réttmæta gagnrýni verða uppspuna og lygi. Stjórnarmenn hafa þagað þunnu hljóði þó þeir viti að formaður félagsins hafi farið fram í fjölmiðlum með ósannindi.“

Ásakanirnar ekki nýjar af nálinni

Guðmundur Ragnarsson var formaður VM á árunum 2008-2018, en þá tapaði hann í formannskjöri fyrir Guðmundi Helga Þórarinssyni. Guðmundur Ragnarsson ákvað að bjóða sig aftur fram í fyrra og sagði af því tilefni að ljóst væri að Guðmundur Helgi starfaði ekki af heilindum og gætti ekki hagsmuna félagsmanna sinna. Guðmundur Helgi var þó endurkjörin með 50.13 prósent greiddra atkvæða á meðan Guðmundur Ragnarsson hlaut 27,22 prósent.

Guðmundur Ragnarsson sagði í tilefni formannskjörsins í samtali við Morgunblaðið að hundruðum milljóna hafi verið ausið úr sjóðum félagsins án löglegra heimilda og stjórn fengi ekki upplýsingar um fjármálin. Værið ærið tilefni til lögreglurannsóknar. Guðmundur Helgi þvertók fyrir þessar ásakanir og taldi engan grundvöll fyrir lögreglurannsókn. Þótti honum leitt að Guðmundur Ragnarsson hefði ákveðið að fara í svona leðjuslag.

Svara ekki fyrirspurnum félagsmanna

Guðmundur Ragnarsson segir í áðurnefndri grein að stjórnarmaður hafi sagt sig úr stjórn og úr félaginu eftir síðasta stjórnarkjör eftir að hafa séð fram á að tilraunir hans til að fá upplýsingar um meðferð og samþykktir fyrir greiðslur úr sjóðnum upp á hundruð milljóna yrði ekki svarað.

Tíu félagsmenn, þeirra á meðal fyrrverandi stjórnarmenn, hafi sent skriflega fyrirspurn í nóvember til stjórnar um meint lögbrot og meðferð á fjármunum félagsins. Þessari fyrirspurn ætli stjórnin ekki að svara. Meðal þeirra sem sendu fyrirspurnina hafi verið aðili sem kom að því að semja lög félagsins.

„Hann veit hvað lögð var mikil vinna í það að tryggja að meðferð fjármuna félagsins yrði varin fyrir misnotkun og sóun. Einn af hornsteinum í starfsemi stéttarfélags er meðferð fjármuna þess.

Auk hans eru félagsmenn sem ekki hafa getað fengið skýringar á starfsemi félagsins hjá stjórnarmönnum þó þeir hafi ítrekað reynt það.“

Hvernig getur stjórnin haldið áfram að vinna í þessum feluleik?

Guðmundur segir að það sé sorglegt að verða vitni að því hversu mörgum félagsmönnum sé sama um þessi meintu lögbrot og hafi Guðmundur Helgi vísvitandi sagt ósatt í fjölmiðlum beri honum að segja af sér. Stjórn VM ætti að lýsa yfir vantrausti á formanninn þar sem hann hafi ekki virt lög félagsins og brotið þau ítrekað og unnið á bak við stjórnina.

„Hvernig ætlar stjórn VM að senda frá sér gagnrýna ályktun um svindl, spillingu og óheiðaleg vinnubrögð í samfélaginu og hvernig getur stjórnin haldið áfram að vinna í þessum feluleik?“

Guðmundur furðar sig á því hvað fjölmiðlar hafi lítinn áhuga á þessum vinnubrögðum.

„Þegar menn verða uppvísir af lögbrotum og siðleysi þá á aldrei að hætta að koma því á framfæri fyrr en sannleikurinn fær að koma fram og viðkomandi látinn axla ábyrgð.

Það er sorglegt að sjá það plan sem stéttarfélagið okkar er komið á. Getulaust til að vinna eins og alvöru stéttarfélag á að gera. Endurheimtum félagið okkar aftur sem öflugt og heiðarlegt stéttarfélag sem getur starfað eðlilega og látið í sér heyra eins og alvöru stéttarfélög eiga að gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu