Gæsluvarðhald yfir karlmanni um þrítugt, sem grunaður er um að hafa hleypt af skoti inn á Dubliners á sunnudaginn, hefur verið framlengt.
Maðurinn var handtekinn á mánudag og var úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag, en það hefur nú verið framlengt til 22. mars.
Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á sunnudag og var með mikinn viðbúnað við skemmtistaðinn Dubliners við Naustin 1. Að sögn sjónarvotta var þar hleypt af haglabyssu.
„Hann kom þarna inn með covid-grímu og hafði rætt stuttlega við starfsfólk um að komast á efri hæðina sýndist mér,“ sagði sjónarvottur sem DV ræddi við.
„Svo virðist hann hafa miðað þarna efst á barinn og hleypt af og hljóp svo út.“
Sjónarvottur greindi frá því að högl hafi fundist í vegg og skilti sem hékk ofan við bar veitingastaðarins.
Sjá einnig: Hleypt af byssuskoti á Dubliner – Sérsveitin að störfum á vettvangi