fbpx
Laugardagur 01.apríl 2023
Fréttir

Fjölskylda á Eyrarbakka í neyð eftir eldsvoða – „Það varð allt sótsvart hérna á nokkrum sekúndum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. mars 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Rafhlaðan er í stýrinu, sem er járnrör, þannig að þarna sprakk hjá okkur bara rörasprengja. Húsið hristist allt og gardínur flugu út um gluggann. Það varð allt sótsvart hérna á nokkrum sekúndum,“ segir Birna Gylfadóttir en hún og fjölskyldan hennar urðu fyrir því að eldur kviknaði í heimili þeirra að Kirkjuhvoli á Eyrarbakka seint síðasta sunnudagskvöld. Orsökin var sú að rafmagnshlaupahjól af gerðinni Tt-2t Electric Scooter sprakk inni í þvottahúsi, en hjólið var í hleðslu. Kviknaði í hjólinu og allt var mettað reyk á örfáum augnablikum.

DFS greindi frá málinu í morgun. Birna segir í samtali við DV að hún vilji eindregið hvetja fólk til að fara varlega við hleðslu á rafhlaupahjólum. „Fólk er með þetta í sambandi við hliðina á rúmunum sínum. Fólk getur dáið af þessu og það hefði getað gerst hjá okkur,“ segir hún en engan sakaði í brunanum. Á heimilinu búa auk Birnu, eiginmaður hennar Ívar Björgvinsson og þrír synir þeirra. Í samtali við DFS lýsir Birna atburðarásinni í kjölfar sprengingarinnar svo:

„Við hjónin hlupum inn í reykinn og eldinn, Ívar þurfti að skríða á gólfinu með slökkvitæki til að ná að slökkva eldinn, slíkur var reykurinn, og ég til að ná strákunum út. Ég ætlaði ekki að ná að vekja Ívan Gauta og draga hann út en það hafðist með því að draga hann fram á gang af öllum lífs og sálar kröftum. Það að vera inni í kolniðamyrkri, sjá ekkert, ná ekki að anda og reyna að koma barninu sínu út er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Ívar náði með einhverjum óskiljanlegum hætti að slökkva eldinn sem logaði glatt. Slökkvilið kom, ásamt lögreglu og sjúkrabíl, og reykræsti húsið. Strákarnir sluppu, enda komum við þeim út á undraverðum hraða.“ 

Birna hefur birt meðfylgjandi myndir af aðgerðum á vettvangi á Facebook. Í samsettri aðalmynd fréttarinnar má sjá ástandið á hlaupahjólinu eftir sprenginguna og brunann.

Lofar hjálpsemi nærsamfélagsins

Húsið að Kirkjuhvoli er óíbúðarhæft eftir brunann og fjölskyldumeðlimir gistu á þremur mismunandi stöðum nóttina eftir atvikið en þau flúðu brennandi húsið á nærfötum og náttfötum einum fata. Hún segir nágranna hafa sýnt mikla hjálpsemi í að hýsa þau, hreinsa til eftir brunann og henda ónýtum munum. „Við erum aum á sálinni en um leið þakklát fyrir að ekki fór verr. Við þurfum að vinna úr þessu og standa saman en þetta er sárt. Við erum komin með samastað á meðan við getum ekki búið heima,“ segir Birna í samtali við DFS.

Mikið tjón og söfnun hafin

Því miður voru samningar fjölskyldunnar við tryggingafélag útrunnir þegar atvikið átti sér stað og því sitja þau Birna og Ívar uppi með tjónið. Er DV spurði Birnu hvort hún geti lagt mat á tjónið sagði hún það erfitt í fljótu bragði. „Ég geri mér ekki grein fyrir því, maður er ennþá bara á haus, en við erum svo þakklát fyrir hjálpina að við eigum vart orð, það eru allir boðnir og búnir til að hjálpa okkur.“

Eftir að hafa hugleitt stöðuna hafði hún síðan þetta að segja um tjónið: „Þetta hleypur á einhverjum hundruðum þúsunda, plús að það þarf að taka allt húsið í gegn því að það eru miklar reykskemmdir í hverju horni. Við erum nærri fatalaus og það sama er varðandi rúmföt og annað slíkt. Það er erfitt að verðmeta tjónið í augnablikinu.“

Hún bætir því við að þetta sé bæði tilfinningalegt og veraldlegt tjón.

Foreldrar barna í 7. bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa gengist fyrir söfnun til styrktar fjölskyldunni. Í texta tilkynningar söfnunarinnar sem birt er í íbúahópi Eyrarbakka á Facebook segir:

„Við foreldrar barna í 7.bekk í BES, þar sem einn sonur þeirra hjóna er i þeim bekk, ætlum því að setja á laggirnar fjáröflun til að hjálpa þeim að lagfæra og bæta það sem skemmdist. Það er til dæmis fatnaður fjölskyldunnar og fleira. Auk þess sem lagfæringar kosta mikið. Okkur langar því að leita til ykkar í okkar góða samfélagi og biðja ykkur um að leggja þessu lið með framlagi, margt smátt gerir eitt stórt. Þau hjónin á Kirkjuhvoli hafa verið dugleg að veita aðstoð og nú getum við aðstoðað þau.“

Öllum er velkomið að styrkja fjölskylduna með fjárframlagi og minnt er á að margt smátt gerir eitt stórt. Reikningsupplýsingar söfnunarinnar eru eftirfarandi:

Reikningsnúmer: 0370-26-025500

Kennitala: 0607862409

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum
Heimildin í vikulega útgáfu

Mest lesið

Edda Falak braut lög

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

ESB-ríkin ætla að auka skotfæraframleiðslu

ESB-ríkin ætla að auka skotfæraframleiðslu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir að Pútín vilji ekki friðarviðræður – Vill sigra

Segir að Pútín vilji ekki friðarviðræður – Vill sigra