fbpx
Föstudagur 26.júlí 2024
Fréttir

Stúlkan með rauða sjalið stígur fram: Fann að ekki var allt eins og það átti að vera

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. desember 2023 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndin af henni birtist í fréttum um allan heim eftir voðaverkin á Supernova-tónlistarhátíðinni í Kibbutz Re‘im í Ísrael, nærri Gaza-ströndinni, þann 7. október síðastliðinn.

Með rautt sjal yfir öxlunum og örvæntingarsvip á andlitinu reyndi hún að flýja undan vopnuðum uppreisnarmönnum Hamas-samtakanna sem myrtu alls 364 gesti hátíðarinnar. Árásin var kveikjan að grimmilegri hefnd Ísraelsmanna með tilheyrandi hörmungum fyrir óbreytta íbúa Palestínu.

Nú hefur stúlkan með rauða sjalið stigið fram og lýst sögu sinni í viðtali við Daily Mail. Hún heitir Vlada Patapov, er fædd í Úkraínu en búsett í Ísrael og er 25 ára móðir þriggja ára stúlku.

Sársaukafull upprifjun

Blaðamaður Daily Mail hitti hana í borginni Asdhod í Ísrael en þar starfar hún við að skipuleggja brúðkaup. Í viðtalinu rifjar Vlada upp að hún hafi farið á hátíðina með unnusta sínum, Matan, en orðið viðskila við hann þegar byssumenn Hamas réðust á gesti hátíðarinnar. Tæpur sólarhringur leið þar til Vlada komst heim til sín í faðm Romi, þriggja ára dóttur sinnar.

„Ég hef ekki talað mikið um það sem gerðist, enda er það enn mjög sársaukafullt að rifja þetta upp,“ segir hún.

„Ég hef talað um þetta við fjölskylduna mína og þakka Guði fyrir að vera á lífi hvern einasta dag. Ég finn samt stundum fyrir samviskubiti yfir því að vera á lífi, vitandi það að margir dóu á hátíðinni. Mín martröð stóð yfir í 18 tíma en hjá öðrum er martröðin enn í gangi,“ segir hún og vísar í gísla sem liðsmenn Hamas tóku og eru enn í haldi.

Ætlaði ekki að fara á hátíðina

Hún segir skrýtið að hugsa til þess að hún ætlaði eiginlega ekki að fara á þessa tilteknu hátíð en ákvað á síðustu stundu að slá til. „Matan hafði fengið miða og við fórum með vinkonu okkar. Ég hafði einhverja skrýtna tilfinningu um að allt væri ekki eins og það ætti að vera á föstudeginum,“ segir hún í viðtalinu.

Úr varð að þau fóru á hátíðina og segir hún að hún, Matan og vinkona þeirra Mai hafi tjaldað og eytt föstudagskvöldinu að mestu í að spjalla saman. „Andrúmsloftið var sérstakt. Fólk skemmti sér vel og dansaði en ég hafði litla orku og dansaði ekki eins mikið og ég geri venjulega á svona hátíðum.“

Mikil ringulreið skapaðist á svæðinu og skildi fólk eftir eigur sínar.

Um klukkan þrjú um nóttina ákváðu þremenningarnir að fara í háttinn og um þremur tímum síðar, um klukkan sex, vaknaði hún við hljóð í símanum sínum. Hún er með snjallforrit sem varar hana við yfirvofandi eldflaugaárásum. Nývöknuð heyrði hún svo skothvelli.

„Þetta voru háværir hvellir og augljóslega stutt frá okkur. Ég vissi ekki hvað væri í gangi en skyndilega kom Matan og sagði að við þyrftum að hlaupa. Eldflaugar flugu fyrir ofan okkur og það varð allt brjálað,“ segir hún.

Myrtur fyrir framan hana

Þeim tókst að flýja í bílinn sinn en mikil ringulreið gerði það að verkum að bílarnir hreyfðust hægt. Hún rifjar upp að hún hafi séð einkennisklæddan mann nokkrum metrum fyrir framan bílinn og talið að um væri að ræða ísraelskan hermann. „Svo sá ég mann fara út úr bílnum sínum og einkennisklæddi maðurinn, sem ég veit núna að var hryðjuverkamaður, skaut hann til bana.“

Matan, sem sat við stýrið, tókst að bakka bifreiðinni og komast út af svæðinu. „Það voru yfirgefnir bílar út um allt og þegar við vorum komin í burtu mættum við lögreglumanni sem sagði okkur að keyra áfram ef við vildum lifa.“

Þau óku áfram en sáu fljótlega að vopnaðir byssumenn voru um allt í kring. „Við reyndum að aka yfir akur en festum bílinn. Þá fórum við út og byrjuðum að hlaupa. Það var þá sem ég varð viðskila við Matan,“ segir hún.

„Ég og Mai fórum saman og það var þá sem ég sást á myndinni sem hefur farið víða,“ segir hún. Vinkonurnar komust inn í bíl hjá góðum manni sem kom þeim í skjól. „Við vorum átta í bílnum, þetta var Kia Picanto, og við vorum öll ofan á hvort öðru. Ég hringdi í Matan og hann sagðist líka vera kominn í skjól.“

Maðurinn sem Vlada þakkar líf sitt heitir Yosef Ben Avu og tókst honum að aka að ísraelskri herstöð í nágrenninu og koma hópnum í skjól. „Þetta tók þrjár klukkustundir en tíminn var mjög fljótur að líða. Það var erfiðast að bíða eftir því að komast heim til dóttur minnar,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt