fbpx
Laugardagur 24.febrúar 2024
Fréttir

Ívar ósáttur við að vera útmálaður sem forsprakki veiðimanna – Lagði Bæjarins besta fyrir fjölmiðlanefnd

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 6. desember 2023 19:30

Ívar Örn Hauksson (t.v.) og Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlanefnd komst nýlega að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlinum Bæjarins besta, bb.is, væri skylt að birta andsvar lögfræðingsins Ívars Arnar Haukssonar, við frétt miðilsins um hann. Málið varðar 36. grein laga um fjölmiðla, um rétt til andsvara.

Forsaga málsins er sú að í lok október birti bb.is frétt þess efnis að hópur manna hefði veitt í leyfisleysi í Sunndalsá í Arnarfirði. Veiddu mennirnir eldislax í net og á stöng.

Fréttin byggði á myndbandi sem Ívar Örn Hauksson birti af viðburðinum. Í fréttinni var fullyrt að ekki hefði verið aflað leyfis hjá eigendum Sunndalsár fyrir veiðunum.

Ívar segir að Fiskistofa hafi brugðist við veiðunum með því að gefa út aðgerðaáætlun en í henni fólst framlenging á veiðitímabili til og með 15. nóvember og hvatning til veiðimanna til að fanga og skila inn eldisfiski sem veiddist.

Ívar var ósáttur við fréttaflutninginn, rangt sé að mennirnir hafi veitt í leyfisleysi, og auk þess hafi hann verið í fréttinni útmálaður sem forsprakki hópsins þegar raunin var sú að hans eina hlutverk hafi verið að mynda veiðarnar og sjálfur hafi hann ekki tekið þátt í þeim.

Ívar heldur því fram að þegar hann hafði samband við fjölmiðilinn, en ritstjóri hans er Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, þá hafi honum ekki verið veitt aðstaða til hreinna andsvara heldur hafi ritstjórinn dembt yfir hann spurningum.

Þá segir Ívar rangt að ekki hafi verið aflað leyfis fyrir veiðunum hjá eigendum árinnar, en tveir eigendur af þremur hafi veitt leyfi. Einnig var Ívar ósáttur við leyfislausa notkun bb.is á höfundarvörðu myndefni hans við fréttaflutninginn.

Eitt þeirra skjáskota sem bb.is birti upp úr myndbandinu.

Fjölmiðlanefnd skipaði fjölmiðlinum að birta andsvar

Í úrskurði fjölmiðlanefndar um málið segir að hver sá sem telji að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra og orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli, hafi rétt til andsvara í viðkomandi miðli.

Í úrskurðinum kemur fram að bb.is, eða útgáfufélag miðilsins, Steig ehf, taldi sig hafa veitt Ívari rétt til andsvara en hann er ósammála því. Fjölmiðlanefnd kvað síðan upp þennan úrskurð:

„Steig ehf. skal birta andsvör Ívars Arnar Haukssonar vegna umfjallana Bæjarins besta þann 31. október, 2. og 7. nóvember 2023 um veiðar í Sunndalsá, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.

Skulu andsvörin birt svo eftir verði tekið á forsíðu vefs Bæjarins besta, bb.is, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla og athugasemdir við 36. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um fjölmiðla. Skulu andsvör birt með sömu leturgerð- og stærð og fréttir Bæjarins besta.

 Andsvör skulu birt án tafar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla, eða eigi síðar en fyrir miðnætti föstudaginn 17. nóvember 2023.“

Eitt þeirra skjáskota sem bb.is birti upp úr myndbandinu.

Ívar birti síðan andsvör sín í bb.is, í samræmi við úrskurðinn, þann 18. nóvember. Þar sagði hann:

„Í fyrsta lagi er rangt að ég hafi stundað veiðar í Sunndalsá þótt framsetning og myndbirting frétta BB gefi slíkt sterklega í skyn. Ég tók einungis upp myndefni af hópi við veiðar en er málaður upp sem einhverskonar forsprakki hópsins, sem er rangt. Í öðru lagi var ekki veitt í óþökk eða óleyfi landeigenda. Friðleifur Guðmundsson fékk leyfi fyrir hópinn hjá landeigendum. Fram kom að einungis 2/3 landeigenda hafi heimilað veiðar, en BB spurði veiðiréttarhafa ekkert út í þá lögbundnu skyldu þeirra að stofna veiðifélag skv. 37. gr. laga um lax- og silungsveiði. Í þriðja lagi er talað um í fréttum BB af málinu að hópurinn hafi veitt 16 laxa í net. Það er rangt, raunin er sú að enginn eldislax veiddist í net í Sunndalsá en heildartala eldislaxa sem veiddust í þessari ferð var yfir 20 eldislaxar úr þremur mismunandi ám á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þá fjallar BB hvergi um þá staðreynd að Hafrannsóknarstofnun hefur í fréttum sínum áréttað að árvekni veiðimanna sé mikilvæg ásamt því að koma sérstaklega á framfæri þökkum til veiðimanna sem hafa veitt og skilað inn eldislaxi. Þrátt fyrir það vitnar BB beint í starfsmann

Hafrannsóknastofnunar í sinni umfjöllun. Að lokum minnist BB hvergi á aðgerðaráætlun Fiskistofu frá 12. september. Í henni framlengdi Fiskistofa veiðitímabilið til og með 15. nóvember 2023 í þeim tilgangi eingöngu að leita uppi og fjarlægja eldislax úr ám til varnar vistfræðilegu tjóni. BB fullyrðir í tveimur fréttum sínum af málinu að veiðitímabilinu hafi verið lokið þegar veiðarnar sem voru myndaðar fóru fram, sem er rangt.“

Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri bb.is, birti athugasemd við yfirlýsinguna og benti á að ekki hafi verið aflað leyfis allra þriggja eigenda árinnar fyrir veiðunum. Ennfremur hafi Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofa neitað afskiptum af veiðiferðinni.

Ívar er sáttur við ákvörðun fjölmiðlanefndar og segi mikilvægt að ritstjórar fjölmiðla sýni ábyrgð í sínum störfum og bendir jafnframt á að fjölmiðlar úti á landi séu byggðarlögum mikilvægir en það sé miður þegar þeir séu nýttir í þeim tilgangi til að reyna koma höggi á fólk persónulega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Guðrún á von á verulegri fækkun hælisleitenda – „Kannski 500 á ári“

Guðrún á von á verulegri fækkun hælisleitenda – „Kannski 500 á ári“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Hafa náð sátt um forsenduákvæðin

Hafa náð sátt um forsenduákvæðin
Fréttir
Í gær

Fyrrum framkvæmdastjóri Píeta segir þörf á löggjöf um frjáls félagasamtök – „Syngja oft hin fínustu félög sitt síðasta eða missa sjarmann“

Fyrrum framkvæmdastjóri Píeta segir þörf á löggjöf um frjáls félagasamtök – „Syngja oft hin fínustu félög sitt síðasta eða missa sjarmann“
Fréttir
Í gær

Banaslys á Djúpavogi – Ökumaður vinnuvélar sá ekki fram fyrir sig

Banaslys á Djúpavogi – Ökumaður vinnuvélar sá ekki fram fyrir sig
Fréttir
Í gær

Inga harðorð og segist vera einn fárra þingmanna sem viðurkennir þetta

Inga harðorð og segist vera einn fárra þingmanna sem viðurkennir þetta
Fréttir
Í gær

Segir líklegt að Rússar ráðist á Ísland komi til átaka: „Engar líkur á að Rússar myndu líta framhjá því“

Segir líklegt að Rússar ráðist á Ísland komi til átaka: „Engar líkur á að Rússar myndu líta framhjá því“