Þessi nýja kenning gengur út á að orustuþotunum hafi verið grandað af F-16 orustuþotum sem Úkraínumenn hafa fengið frá Vesturlöndum. Nokkur vestræn ríki hafa gefið Úkraínumönnum slíkar þotur og hafa úkraínskir flugmenn verið í þjálfun á Vesturlöndum síðustu mánuði til að læra að fljúga slíkum þotum. F-16 er mjög fullkomin orustuþota sem margir vestrænir herir ráða yfir. Fram að þessu hefur verið talið að Úkraínumenn myndu fá slíkar þotur á næsta ári en nú er sú kenning komin fram að þeir hafi nú þegar fengið nokkrar afhentar og hafi tekið þær í notkun.
Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við TV2 að ekki sé hægt að útiloka að rússnesku flugvélarnar hafi verið skotnar niður af F-16 þrátt fyrir að þær eigi opinberlega ekki að vera komnar í hendur Úkraínumanna. Hann sagði engar sannanir fyrir að F-16 vélar hafi verið notaðar til að skjóta vélarnar niður og bætti við: „En þessi mikli fjöldi rússneskra flugvéla, sem var skotinn niður, er nákvæmlega það sem Úkraínumenn vonast til að geta gert með þessum flugvélum og það er athyglisvert að þetta gerðist á mörgum stöðum við víglínuna. Nú er sá tími sem við megum eiga von á fyrstu F-16 vélunum í Úkraínu.“
En hvort sem það voru F-16 vélar eða eitthvað annað sem var notað til að granda rússnesku orustuþotunum þá munu Rússar standa frammi fyrir miklum áskorunum í lofti á næstunni sagði hann.
Hann sagði ekki útilokað að F-16 vélum hafi verið laumað til Úkraínu án þess að tilkynnt væri um komu þeirra opinberlega. Það geti þjónað hernaðarlegum hagsmunum að gera það þannig, að geta komið óvinunum á óvart með nýju vopni. Það sama hafi gerst fyrir nokkrum mánuðum þegar Úkraínumenn fengu langdræg ATACMS-flugskeyti. Ekki hafi verið tilkynnt um afhendingu þeirra og síðan hafi þær farið að hæfa skotmörk sem höfðu verið utan skotfæris Úkraínumanna fram að því.
Rússneski herbloggarinn Rybar, sem er með tæplega tvær milljónir fylgjenda á Telegram, segir að Úkraínumenn hafi nú þegar tekið 12 F-16 vélar í notkun og að þrjár til viðbótar séu notaðar til þjálfunar í Úkraínu.