Innanríkisráðherra Bretlands, James Cleverly, hefur beðist formlega afsökunar á brandara sem hann lét falla á dögunum í mótttöku í Downingstræti 10 fyrr í mánuðinum. Fyrir framan hóp kvenna grínaðist Cleverly með að lykillinn af farsælu hjónabandi hans væri að hann héldi eiginkonu sinni slævðri með Rohypnol-nauðgunarlyfinu til þess að hún áttaði sig ekki á því að það væru álitlegri karlmenn í boði en hann. „Það er ekki ólöglegt ef það er bara smávegis,“ sagði Cleverly.
Breska slúðurblaðið The Sun greindi frá brandaranum sem að fór ekki vel ofan í gesti móttökunnar né heldur fulltrúa ýmissa samtaka sem náðu ekki upp í nef sér af hneykslun. Sérstaklega í ljósi þess að sama dag hefði Cleverly blásið til átaks til þess að stemma stigu við aukningu þess að lyfjum sé lætt í drykki á skemmtistöðum.
Í yfirlýsingu frá Cleverly kom fram að um einkasamtal hefði verið að ræða og að brandarinn hafi átt að vera kaldhæðinn. Það komst ekki til skila og á því biðist hann afsökunar.