News.co.au greinir frá þessu og hafa myndir af plágunni meðal annars birst á vefnum Reddit.
Um er að ræða svokallaða sykurreyrskörtu (Rhinella Marina) sem getur valdið miklum skaða enda étur hún nánast allt sem að kjafti kemur.
Maður að nafni Jonathan deildi myndinni hér að ofan á Reddit og sagðist hann óttast hvað gerist þegar körturnar verða búnar að ná fullri stærð.
„Þær eru um það bil þremur vikum frá því að taka yfir bæinn. Þarna geng ég reglulega með hundinn minn, þetta er alveg við húsið mitt“ sagði hann og bætti við að jafnvel húsið hans væri ekki óhult. „Þær komust inn í bílskúrinn til mín í kvöld. Þetta er ömurlegt.“
Sykurreyrskartan var flutt til Ástralíu árið 1935 til að halda skordýrum í skefjum. Aðeins voru 102 körtur fluttar til Ástralíu en ekki leið á löngu þar til þær voru búnar að fjölga sér og koma sér vel fyrir. Talið er að stofninn telji að minnsta kosti 200 milljón dýr um þessar mundir.
Kartan á enga náttúrulega óvini og á því afar auðvelt með að fjölga sér ef skilyrði eru góð. Sú staðreynd að kartan er eitruð veldur mörgum Áströlum hugarangri en hún getur sprautað eitri frá sér ef hún telur sér ógnað.
Ef eitrið kemst inn í meltingarfæri manna eða dýra getur það valdið dauða, en í umfjöllun News.co.au kemur fram að ekkert dauðsfall hafi orðið í Ástralíu sem rekja má til körtunnar.