Danska ríkisútvarpið hefur eftir saksóknara málsins, Anders Larsson, að enn gangi nokkrir grunaðir lausir. Þegar hann var spurður hvort fólkið væri í Danmörku eða erlendis sagði hann að hvoru tveggja eigi við.
Gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir, fyrir luktum dyrum og því höfðu fjölmiðlar og almenningur ekki aðgang að dómsalnum á meðan. Því liggur lítið fyrir um málsatvik því leyniþjónustan og lögreglan, sem vinna saman að málinu, hafa haldið spilunum mjög þétt að sér.
Vitað er að 19 ára kona er meðal þeirra þriggja sem voru handtekin í gærmorgun en þau voru öll úrskurðuð í gæsluvarðhald.
Danskir fjölmiðlar segja að annar karlmaðurinn, sem var handtekinn í gær, sé á sextugsaldri og hafi verið áberandi í samfélagi innflytjenda og einnig hafi haft ákveðin tengsl við glæpasamtökin LTF en þau eru bönnuð í Danmörku. Þetta eru glæpasamtök innflytjenda, aðallega múslima.
Lögreglan sagði í gær að málið teygi anga sína til skipulagðra glæpasamtaka og nefndi þar LTF. Lögreglan sagði einnig á fréttamannafundi í gær að málið teygi sig til útlanda. Ekki var skýrt frá hvaða hvatir liggja að baki fyrirætlunum hinna grunuðu um að fremja hryðjuverk en talsmaður leyniþjónustunnar sagði að sérstök áhersla sé á að gæta öryggis stofnana og samkomustaða gyðinga í Danmörku.