fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Hvað þarf til að framselja Íslending til Noregs? – „Það eru engar líkur á því að þessi kona fari til Evrópu og láti sig hverfa“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 1. desember 2023 13:00

Edda Björk Arnardóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt íslenskum lögum er hægt að framselja íslenskan ríkisborgara til hinna Norðurlandanna ef hann hefur verið búsettur tvö síðustu árin áður en brotið var framið í því landi sem óskar eftir framsali hans.

Þetta kemur fram í lögum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Í 2. grein laganna segir:

„Íslenskur ríkisborgari verður því aðeins framseldur
    1. að hann hafi verið búsettur tvö síðustu árin, áður en brot var framið, í því landi, sem framsals óskar, eða
    2. að þyngri refsing en 4 ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti eftir íslenskum lögum.“

Ljóst er af þessu að framsal Eddu Bjarkar Arnardóttur til Noregs á grundvelli norrænnar handtökuskipunar er í samræmi við lög. Héraðsdómur hefur úrskurðað á þá lund að framsal skuli eiga sér stað en Landsréttur á eftir að úrskurða í málinu. Til stóð að flytja Eddu Björk til Noregs í nótt frá fangelsinu í Hólmsheiði þar sem henni er haldið, en hætt var við það í kjölfar fjölmennrar mótmælastöðu fyrir utan fangelsið. Ekki er þó vitað hvað olli því að flutningnum var frestað.

Lögmaður Eddu Bjarkar, Helga Vala Helgadóttir, segir að framsalið lifi þó að ekki hafi orðið af flutningnum í nótt því hún eigi að mæta tl þingfestar málsins gegn henni í Noregi. Helga segir í samtali við DV að ekki sé komin dagsetning á þingsetninguna. Því gæti Edda Björk orðið að sitja í gæsluvarðhaldi í Noregi um ótilgreindan tíma ef framsalið verður framkvæmt. „Það á bara að henda henni í fangelsi í Noregi um óákveðinn tíma,“ segir hún.

„Tíu dómar sem saksóknari tilgreinir í sinni beiðni um handtöku og framsal eiga það allir sammerkt að varða  ekki íslenska ríkisborgara, þeir eru ekki búsettir á Íslandi nema held ég einn eða tveir, eru ekki með tengsl á Íslandi heldur eru fólk sem er að reyna að komast undan réttvísinni með því að flýja hingað og hverfa. Það eru engar líkur á því að þessi kona fari til Evrópu og láti sig hverfa. Hún á sjö börn á Íslandi, þar af fimm undir lögaldri. Hún á mann og hunda og hús og stóra fjölskyldu.“

Helga Vala segir að Edda Björk sé alveg tilbúin að mæta fyrir dóm í Noregi. „Það sem við erum að berjast fyrir er að það verði tryggt að hún fái að koma til baka eftir þingfestinguna og bíða hér eftir næstu fyrirtöku í málinu. Hún mun taka út þennan dóm sem er fyrir að hafa flutt drengina hingað.“

Helga Vala segist ekki vita hvers vegna hætt var við brottflutning Eddu Bjarkar í nótt en bendir á að málsmetandi fólk hafi mætt fyrir utan Hólmsheiði í nótt þegar flytja átti Eddu Björk til Keflavíkurflugvallar.

Helga Vala skrifar eftirfarandi texta á Facebook-síðu sína um málið:

„Nú er það ljóst að Edda var ekki sótt í nótt eins og til stóð og framseld til Noregs. En framsalið lifir því hennar er að mæta við þingfestingu í sakamáli gegn henni vegna flutnings sona hennar til Íslands. Þingfesting tekur yfirleitt 15-30 mínútur. Svo er bið eftir næstu fyrirtöku sem klárlega er ekki fyrirhuguð fyrr en á næsta ári, ef þingfestingin fer yfirhöfuð fram á þessu ári. Því ættu íslensk stjórnvöld að fara fram á að Edda verði send aftur heim um leið og þingfestingu er lokið. Ef svo ótrúlega vill til að stjórnvöld haldi að Edda muni strjúka af landi brott (lögreglan er með vegabréfið hennar) þrátt fyrir að eiga 7 börn á Íslandi, maka, stórfjölskyldu sem er afar náin, hús og hunda þá er vel hægt að beita vægari úrræðum en að geyma hana í norsku gæsluvarðhaldi vikum saman yfir jól og áramót.

Það má til dæmis setja á hana ökklaband svo hægt sé að fylgjast með ferðum hennar.

Við skulum muna að Edda hefur ekki framið hryðjuverk. Hún er ekki í skipulagðri glæpastarfsemi eða neitt slíkt. Hún sótti drengina sína til Noregs og þeir hafa marglýst því yfir við sálfræðinga að hér vilji þeir vera. Við getum svo rætt umgengni, skort á henni og allt það sérstaklega fram og tilbaka, en frumúrskurður, sem málið allt byggir á, var kveðinn upp til bráðabirgða að henni fjarstaddri og enginn lögmaður kallaður inn til að vera hennar málsvari. Slíkt myndi aldrei gerast á Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt