fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Fimmtán ára drengur grunaður um ítrekuð kynferðis- og ofbeldisbrot – Lögregla og barnavernd gagnrýnd fyrir getuleysi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 4. desember 2023 12:00

Íþróttamiðstöðin Ásgarður í Garðabæ. Mynd DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega birtust fréttir af slysi sem átti sér stað í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ, en þá var nemanda hrint fram af svölum í húsinu og slasaðist hann illa.

Atvikið átti sér stað á afmælishátíð Garðaskóla þann 22. nóvember síðastliðinn. Vísir.is greindi frá.  Samkvæmt heimildum DV var fjöldi manns vitni að atvikinu og mun 15 ára nemandi við skólann þar hafa hrint 13 ára nemanda yfir handrið. Tvíbrotnaði yngri nemandinn á öðrum fæti og þurfti að gangast undir aðgerð síðar um kvöldið.

Meintur gerandi í málinu hefur í það minnsta verið kærður þrisvar til lögreglu vegna kynferðisbrota og ofbeldisbrota gegn skólasystkinum og stúlkum í öðrum sveitarfélögum, en aldrei hefur verið tekin skýrsla af honum. Aðilar sem DV hefur rætt við segja að koma hefði mátt í veg fyrir hið skelfilega atvik sem átti sér stað í Ásgarði ef fyrri mál piltsins hefðu verið rannsökuð til hlítar og hann látinn sæta ábyrgð í samræmi við aldur sinn. Er samvinna lögreglu og barnaverndaryfirvalda í Garðabæ í málum drengsins gagnrýnd harðlega.

Þau mál sem kærð hafa verið til lögreglu hafa verið felld niður án þess að rannsókn hafi verið lokið á þeim. Foreldrar piltsins hafa neitað að koma með hann til skýrslutöku. Faðir drengsins hafði í frammi hótanir í garð foreldra og krafðist þess að kærunar yrðu dregnar til baka. Fullyrtu foreldrarnir einnig að drengurinn hefði orðið fyrir hótunum og skemmdarverkum.

Hljóð og mynd fari ekki saman

Viðmælendur DV staðhæfa að ósamræmi sé í upplýsingum sem lögregla og barnaverndaryfirvöld hafa gefið í málinu. Þannig tjáði Ævar Pálmi Pálmason, yfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, föður einnar stúlkunnar að það stæði ekki á lögreglu að kalla drenginn til skýrslutöku ef barnavernd Garðabæjar legðist ekki gegn því. Barnavernd Garðabæjar kannast hins vegar ekki við að hafa lagst gegn því að drengurinn yrði tekinn í skýrslutöku.

Samkvæmt heimildum DV hafa hin meintu kynferðisbrot haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir stúlkurnar. Foreldrar stúlknanna gera ekki athugasemdir við framgöngu skólans í málinu en harma viðbrögð lögreglu og barnaverndarnefndar Garðabæjar. Sérstaklega í ljósi þess að það sé heimild í lögum til að þvinga ólögráða einstaklinga í skýrslutöku í samráði lögreglu og barnaverndar.

Samkvæmt heimildum DV var drengnum vísað frá í viku frá Garðaskóla vegna atviksins hörmulega í Ásgarði.

Einn af þolendunum er sögð niðurbrotin vegna málsins og trú hennar á réttarkerfinu brostin. Réttargæslumaður hennar segir um málið í bréfi sínu til lögreglu:

„Lögregla, barnaverndaryfirvöld í Garðabæ og stjórnendur skólans hefðu átt að kalla til landsteymi um farsæld barna í skólum, sbr. Lög 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem tóku gildi 1. janúar 2022. Landsteyminu er ætlað að styðja við börn, foreldra og starfsfólk skóla þegar alvarleg mál koma upp, t.d. vegna ofbeldismála. Umbjóðandi minn telur að ef gætt hefði verið téðra lagafyrirmæla, hefði samþætting aðgerða komið í veg fyrir niðurfellingu málsins…“

„Þessi drengur þarf nauðsynlega hjálp en það hefur ekki enn verið gripið inn í hans mál. Vegna þessa ráðaleysis gerist þetta atvik í Ásgarði um daginn, sem hefði mátt koma í veg fyrir,“ segir einn viðmælandi DV.

Foreldrar þolenda hafa leitað ítrekað síðastliðið ár til ráðherra mennta- og barnamála, ráðuneytisstjóra mennta- og barnamála, barna- og fjölskyldustofu, kynferðisbrotadeildar lögreglu, bæjarstjóra Garðabæjar, sviðsstjóra velferðarsviðs Garðabæjar og upplýst um stöðu mála en án nokkurs árangurs.

Þeim finnst þetta aðgerðarleysi og linkind til háborinnar skammar fyrir alla þá þolendur sem hafa lent í svipaðri stöðu og kalla eftir lagabreytingum svo hægt sé að tryggja að fleiri aðilar lendi ekki í svipaðri stöðu.

Ákvarðanir teknar með hagsmuni barna að leiðarljósi

DV hafði samband við kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fjölskyldusvið Garðabæjar, sem barnaverndarþjónusta sveitarfélagsins heyrir undir, og óskaði viðbragða við þeirri gagnrýni að mál gegn piltinum hefðu ekki verið rannsökuð til hlítar og hann ekki kallaður til skýrslutöku. Spurt var hvort skortur á refsiúrræðum fyrir börn á þessum aldri hefði áhrif á rannsóknir mála.

Ekki barst svar frá lögreglu en Ásta Sigrún Magnúsdóttir, samskiptastjóri Garðabæjar, svaraði fyrirspurn DV. Hún sagði Garðabæ og Barnavernd Garðabæjar ekki geta tjáð sig um einstök mál en ákvarðanir væru alltaf teknar með það í huga sem er börnum fyrir bestu. Ennfremur segir í svarinu:

„Varðandi spurningu þína um refsiúrræði þá er það svo að engin refsiúrræði eru til staðar fyrir börn yngri en 15 ára en að barnavernd hefur þó stuðnings- og meðferðarúrræði fyrir börn og að þau eru notuð þegar við á.  

 Almenn afstaða barnaverndar varðandi skýrslugjöf er í raun samkvæmt barnaverndarlögum, það er að segja að með vísan í 1. mgr. 4. gr. þeirra þar sem fram kemur að að barnavernd skuli ávallt beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og að hagsmunir þeirra skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga