New York Times greinir frá því að farið sé að bera meira á því að þeir sem nota ópíóða að staðaldri eru einnig farnir að ánetjast fleiri tegundum lyfja. Þetta gerir það að verkum að mjög erfitt getur reynst að meðhöndla fíknina.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, segir að um 70-80% allra ópíóðafíkla glími við svokallaða fjöllyfjafíkn sem er talsverð aukning frá því sem áður var.
„Þetta er ekki lengur ópíóðafaraldur,“ segir Dr. Cara Poland, aðstoðarprófessor við Michigan State University, í samtali við Times.
Í umfjölluninni kemur fram að fíkniefnasalar og framleiðendur efnanna séu oftar en ekki búnir að blanda allskonar efnum saman til að framkalla meiri fíkn hjá viðskiptavinum. Er hér til dæmis um að ræða xylazine, sem er deyfilyf ætlað dýrum, og kvíðastillandi lyf eins og Valíum, Xanax og Klonopin.
Þá eru mýmörg dæmi þess að á götunni gangi kaupum og sölum falsaðar töflur sem innihalda fentanýl.
Dr. Paul Trowbridge fíknilæknir segir fíkla sjaldan vita hvað þeir eru að kaupa með tilheyrandi hættu. „Þetta er drápsvöllur þarna úti,“ segir hann.
Loks kemur fram að metamfetamínneysla hafi aukist aftur jafnt og þétt í Bandaríkjunum og dauðsföllum samhliða því. Oft sé um að ræða einstaklinga sem nota bæði ópíóða og metamfetamín.
„Það getur verið erfitt að finna augnablikið þar sem einstaklingur er tilbúinn í meðferð við lyfjafíkn en metamfetamínið gerir þetta svo miklu erfiðara,“ segir sérfræðingur í fíknimeðferð við Times.