Hælisleitendurnir eru margir frá löndum eins og Írak, Jemen og Sýrlandi. Þessi straumur hefur nú orðið til þess að Finnar hafa lokað fjórum syðstu landamærastöðvum sínum að Rússlandi en þar hefur straumur hælisleitenda verið mestur.
Nú standa fjölmörg reiðhjól, sem hald hefur verið lagt á, við landamærastöðina í Nuijamaa. Þetta eru allt hjól framleidd í Rússlandi og eru þau auðþekkjanlega vegna þess hversu hátt og hringlaga stýrið á þeim er.
Þessi straumur hælisleitenda er síðasta stigmögnun deilna Finna og Rússa. Finnar saka Rússa um að standa á bak við þennan straum. Matti Pitkaniitty, ofursti hjá finnsku landamæragæslunni, sagði í samtali við Helsinki Times að ekki sé annað að sjá en þetta sé vel skipulagt.
Hælisleitendurnir koma löglega til Rússlands en hafa ekki heimild til að fara til Finnlands sem er eitt aðildarríkja ESB.
Komið hefur til átaka á milli landamæravarða og hælisleitenda. Myndband, sem var tekið upp Rússlandsmegin við landamærin, sýnir hælisleitendur koma gangandi í litlum hópum eftir þjóðveginum og að finnsku landamærunum. En skömmu áður en þeir koma að landamærunum koma þeir að bílum, sem er lagt í vegkantinum, þar sem þeir fá reiðhjól til að halda för sinni áfram á. Ekki er vitað hverjir afhenda þeim reiðhjólin.
Recent developments in Finland:
Over the past few days, Russia has sent an increasing number of migrants to Finland's borders. Finland has closed several border crossing points due to the authorities' threat assessment.
A video surfaced of the Russian operation. 1/ pic.twitter.com/Vb7c1iLLmD
— Emil Kastehelmi (@emilkastehelmi) November 19, 2023
Víkur þá sögunni að reiðhjólunum og ástæðunni fyrir að hælisleitendurnir hjóla yfir landamærin. Vegna refsiaðgerða ESB gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu mega Rússar ekki lengur aka yfir landamærin. En Finnar hafa komið til móts við þá með því að leyfa íbúum nærri landamærunum að hjóla yfir þau til að heimsækja ættingja og vini sem búa Finnlandsmegin. En nú hafa Finnar lokað fyrir þetta.
Einn atburður hefur sérstaklega orðið til þess að Finnar saka Rússa um að standa á bak við flóttamannastrauminn. Í samtali við Radio Free Europe sagði Jouko Kinnunen, yfirmaður landamæragæslunnar í Vartius, að um helgina hafi rússneskir landamæraverðir ýtt fólki að finnsku landamærunum og lokað landamærahliðunum að baki því. Hann sagði að sumir hælisleitendurnir hafi sakað rússneska landamæraverði um að hafa „ýtt“ þeim frá Rússlandi gegn vilja þeirra og lýst því yfir að þeir vildu ekki sækja um hæli í Finnlandi.