fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Markús Darri og fósturforeldrar hans í baráttu við kerfið – „Þau ólu mig upp og ég vil að þau ættleiði mig líka“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 19. nóvember 2023 08:30

Anna Dóra og Markús Darri. Aðsendar myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fólkið sem Markús Darri Arnoddsson kallar pabba og mömmu, fólkið sem ól hann upp í ástríki allt frá fæðingu, eru ekki skráð foreldrar hans. Markús Darri, sem er tvítugur að aldri, hefur freistað þess að koma því til leiðar að þessir ástríku foreldrar hans ættleiði hann. Útbúin var umsókn og send til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fyrir skömmu en umsókninni var hafnað. Ástæðan er sú að foreldrarnir eru skilin og búa ekki lengur saman.

„Ég var gefinn þegar ég fæddist því mamma mín var mjög veik og gat ekki hugsað um mig. Þau þráðu barn og þau fengu mig,“ segir Markús Darri sem ræddi stuttlega þessa baráttu sína við DV, ásamt móður sinni, Jónu Dóru Ástudóttir.

Blóðfaðir Markúsar Darra lagðist ávallt gegn því að Jóna Dóra og eiginmaður hennar ættleiddu Markús Darra en eftir að hann varð 18 ára og sjálfráða fór hann að beita sér fyrir því að eina fólkið í heiminum sem hann getur kallað foreldra sína verði í raun skráð foreldrar hans.

Jóna Dóra útskýrir fyrir blaðamanni að blóðmóðir Markúsar Darra og hennar fyrrverandi eiginmaður séu bræðrabörn. Sú ráðstöfun að hún og hennar maður tækju að sér drenginn hafi verið gerð innan fjölskyldunnar án aðkomu barnaverndaryfirvalda. Hins vegar unnu hjónin síðar dómsmál gegn föðurnum varðandi forsjá yfir Markúsi Darra og voru skráð forsjáraðilar hans.

Hver mega ættleiða og hver mega vera ættleidd?

Í lögum um ættleiðingar er gert ráð fyrir því að ættleiðendur séu annaðhvort par (hjón eða sambúðarfólk) eða einstaklingar, en ekki er gert ráð fyrir að tveir einstaklingar sem eru ekki í sambúð ættleiði barn saman. Um ættleiðendur segir í 2. grein laganna:

„Hverjir geta verið ættleiðendur.
[Hjón … 1) eða einstaklingar sem hafa verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár skulu standa saman] 2) að ættleiðingu, enda þeim einum heimilt að ættleiða saman með þeim frávikum sem í grein þessari getur.
[Öðru hjóna eða einstaklingi í … 1) óvígðri sambúð] 2) má þó með samþykki hins veita leyfi til að ættleiða barn þess eða kjörbarn.
[Öðru hjóna eða einstaklingi í … 1) óvígðri sambúð] 2) má og veita leyfi til ættleiðingar ef hitt er horfið eða geðrænum högum þess svo háttað að það beri ekki skyn á gildi ættleiðingar.
Heimilt er að leyfa einhleypum manni að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta.
Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við [sambúð tveggja einstaklinga] 2) sem skráð er í þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum.“

Þriðja málsgrein laganna afmarkar hver geta verið ættleidd. Þar segir að lögin taki til barna innan 18 ára aldurs. Síðan segir: „Sama er um ættleiðingar þeirra sem eldri eru, nema annars sé getið og eftir því sem við á.“

Því miður virðist bókstafur laganna standa gegn því að foreldrar Markúsar Darra geti fengið að ættleiða hann.

Lög um ættleiðingar hafa það helst að markmiði að vernda hagsmuni og velferð ættleiddra barna. Barátta Markúsar Darra snýst hins vegar um þau mannréttindi að hann fái það fólk sem hann telur sína réttu og einu foreldra skráð sem slík.

Eiginmaðurinn fyrrverandi er heimilisvinur

„Það má hafa í huga að við, ég og minn fyrrverandi eiginmaður, vorum saman frá árinu 1985 til 2015. Það er mjög gott samband á milli okkar og hann kemur stundum hingað í mat til okkar. En af því að við erum fráskilin og ekki á sama heimilisfangi þá getum við ekki fengið að ættleiða hann bæði,“ segir Jóna Dóra.

Markús Darri greinir frá því að óformlega hafi þeim verið tjáð að annað þeirra gæti fengið að ættleiða hann. „Mér var boðið að velja annað en ég er aldrei að fara að gera upp á milli þeirra. Það er annaðhvort bæði eða hvorugt. Það þarf að breyta þessum lögum og ég fer og tala við forsetann ef það verður ekki gert,“ segir hann.

„Þau ólu mig upp og ég vil að þau ættleiði mig líka,“ bætir Markús Darri við með miklum þunga. „Ég vil ekki þurfa að gera upp á milli þeirra og velja bara annað þeirra. Af hverju má ég ekki eiga foreldra sem eru skilin, eins og svo margir aðrir?“

„Hann er mjög ósáttur af því núna er hann bara skráður einn og er eins og einstæðingur, eðlilega er hann mjög ósáttur við það,“ segir Jóna Dóra.

Lögin snúast um hagsmuni barna

Elísabet Hrund Salvarsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, segist ekki þekkja til dæma þar sem tveir einstaklingar sem ekki eru tengdir með sambúð eða hjónabandi hafi ættleitt barn. Lög í öllum löndum sem hún þekkir til í leyfi ekki slíkt. Tekið skal fram að Íslensk ættleiðing vinnur eingöngu að ætteiðingum erlendra barna á Íslandi. Hún segir að í sumum löndum þurfi að gefa upp ástæður fyrir skilnaði ef aðili sem óskar þess að verða kjörforeldri er skilinn.

„Hagsmunir barnanna eru í fyrirrúmi og ráða þessu. Annaðhvort einstaklingar eða par í sambúð eða hjónabandi geta ættleitt barn samkvæmt lögum. Tveir ótengdir einstaklingar geta það ekki,“ segir Elísabet.

Hún segist gera sér grein fyrir því að þetta dæmi snúist ekki um velferð barns í uppvexti heldur sé um að ræða fullorðinn einstakling sem vilji að uppeldisforeldrar hans verði skráðir foreldrar hans. Hugsanlega sé þetta sem eitthvað þurfi að huga að í lagasetningu en tengist ekki viðfangsefnum Íslenskrar ættleiðingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt