Joe Biden, Bandaríkjaforseti, líkti orðræðu Donald Trump, fyrrverandi forseta, við orðræðu nasista þegar hann ávarpaði fjársterka stuðningsmenn sína síðastliðinn þriðjudag. Trump sækist nú eftir útnefningu Repúblikana sem næsta forsetaefni flokksins og fullyrti Biden að ef hann yrði kosinn forseti myndi hann nýta vald embættisins til að ná sér niður á andstæðingum sínum.
Biden tiltók sérstaklega orðræðu Trump um að kalla pólitíska andstæðinga sína „meindýr“ sem dæmi um orðræðu sem væri á pari við orðræðu nasista á sínum tíma.
Í nýlegri ræðu á kosningafundi sagði Trump: „Við munum svæla kommúnistana út, marxistana, fastistana og öfgavinstrið sem lifa eins og meindýr í samfélagi okkar.“ Sagði Trump að hin raunverulega ógn við bandarískt samfélag kæmi ekki frá öfgahægrinu heldur öfgavinstrinu og það styrktist dag frá degi.
Þá lét Trump einnig hafa eftir sér á dögunum að innflytjendur væru „að spilla blóði Bandaríkjanna“ og benti Biden einnig á þá orðræðu sem dæmi um orðræðu sem gæti hafa heyrst í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar.