Guðmundur gerir orð Ásgeirs Baldurs, forstjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures, að umtalsefni en fyrirtækið keypti nýlega hinn vinsæla ferðamannastað Kerið.
Ásgeir ræddi kaupin í viðtali við Vísi í gær þar sem fram kom að Kerinu hefði ekki enn verið fundið enskt heiti. Arctic Adventures rekur ferðaþjónustu við fleiri náttúruperlur hér á landi, til dæmis Raufarhólshelli í Þrengslunum sem kallaður er Lava tunnel. Þá býður fyrirtækið upp á ferðir um ísgöng í Langjökli undir heitinu Into the glacier.
Þegar Ásgeir var spurður hvort komið væri enskt nafn á Kerið til markaðssetningar fyrir erlenda ferðamenn sagði hann:
„Við höfum svolítið verið að vandræðast með það hvort þetta sé Kerið eða the Crater. Kerið er frábært nafn en við eigum eftir að læra inn á það hvað útlendingarnir nota yfir þetta. Kannski verðum við með nafnatillagnakeppni um hvað erlenda heitið á að vera. Það er the Crater sem er notað í dag, en allar tillögur eru vel þegnar. Að óbreyttu verði nafnið þó the Crater áfram,“ sagði hann í áðurnefndu viðtali.
Guðmundur Andri er ekki sáttur við þessa þróun og gerði hann málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gær.
Hann bendir á að enn hafi ekki verið valið enskt heiti á Fujijama-fjall eða Montmartre-hæðina, hvað þá franskt nafn á Stonehenge eða grískt heiti á Gamla Stan.
„Mál er að linni þessu enskuböli sem tröllríður hér öllu. Örnefni á Íslandi eiga að vera íslensk (eða hugsanlega keltnesk),“ segir Guðmundur Andri og taka margir undir, til dæmis Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur sem segir:
„Hvers konar aumingjaháttur er þetta og minnimáttarkennd. Þetta heitir Kerið. Útlendingar sem koma vilja fá að vita nafnið- fyrir nú utan að þeir tala ekki allir ensku! Meira að segja þeim enskumælandi finnst asnaleg þessi uppsleiking við enskuna.“