Þá skutu Úkraínumenn ATACMS-flugskeytum á tvo rússneska herflugvelli. Segja Úkraínumenn að þessi langdrægu flugskeyti hafi eyðilagt níu rússneskar árásarþyrlur, loftvarnarkerfi og skotfærageymslu.
„ATACMS hefur sýnt hvers það er megnugt,“ sagði hæstánægður Volodymyr Zelenskyy, forseti, í kjölfar árásanna. Úkraínski herinn birti myndband á X sem sýnir þegar flugskeytunum var skotið á loft.
Rússnesk yfirvöld sögðust, eins og þau gera oft, hafa skotið flugskeytin niður áður en þau hæfðu skotmörk sín. Þessu vísaði þekktur rússneskur herbloggari á bug á þriðjudaginn og sagðist brugðið yfir þeim skaða sem flugskeytin ollu. „Þetta er ein versta árásin sem við höfum orðið fyrir í hernaðaraðgerðinni í Úkraínu, hugsanlega sú versta,“ skrifaði bloggarinn „Fighterbomber“ á Telegram.
Flugskeytin draga rúmlega 160 km og eru mjög nákvæm.
Drægi þeirra skiptir miklu máli í stríðinu í Úkraínu og getur haft mikil áhrif á rússneska herinn. Einn helsti ráðgjafi Zelenskyy skrifaði á X að nýr kafli sé hafinn í stríðinu. Nú hafi rússneskar hersveitir, sem eru á alþjóðlega viðurkenndu úkraínsku landsvæði, ekki lengur neina örugga staði til að vera á.
Úkraínumenn geta nú hæft skotmörk langt inni á Krímskaga. Þetta neyðir Rússa til að staðsetja skotfærageymslur, flugvélar og árásarþyrlur enn lengra frá víglínunni og það veldur enn meiri vandræðum við birgðaflutninga.
Árásarþyrlurnar geta ekki athafnað sig eins frjálslega og fram að þessu ef þær verða færðar fjær vígvellinum. Hermenn á jörðu niðri verða að treysta á birgðaflutninga um mörg hundruð kílómetra leið til að fá mat, eldsneyti og skotfæri. Skortur á því síðastnefnda getur verið uppskriftin að ósigri í stríði.