Í þættinum var spiluð leynileg upptaka af því þegar Giambruno, sem er sjálfur þekktur sjónvarpsmaður á Ítalíu, gaf kvenkyns kollegum sínum undir fótinn.
„Þú ert svo klár. Af hverju hitti ég þig ekki fyrr,“ heyrist Giambruno meðal annars segja í upptökunni.
Þetta var ekki það eina sem Giambruno sagði því hann heyrðist einnig spyrja annan kollega hvort hún væri einstæð eða í opnu sambandi.
Hann viðurkenndi svo að hafa haldið framhjá, allir hjá Mediaset, fyrirtækinu sem hann starfar fyrir, viti það. Þá hafi hann tekið þátt í hópkynlífi og spurði hann konuna hvort hún vildi slást í hópinn næst.
Meloni tilkynnti á X, áður Twitter, í morgun að hún og Giambruno væru skilin. Þetta hefði legið í loftinu í þó nokkurn tíma og þau þroskast frá hvort öðru. Þau eiga saman sjö ára dóttur og höfðu verið saman frá árinu 2015.
Meloni tjáði sig ekki um upptökuna sem spiluð var í þættinum en sagðist þakklát Giambruno fyrir tíma þeirra saman. Þau hefðu gengið í gegnum erfiðleika saman en einnig átt frábæran tíma. Hápunkturinn væri þó fæðing dóttur þeirra árið 2016.