Garavito játaði að hafa myrt að minnsta kosti 190 börn á aldrinum 8 til 16 ára á tíunda áratug síðustu aldar. Flest börnin bjuggu við sára fátækt en hann lokkaði þau til sín með ýmsum aðferðum þar sem hann braut gegn þeim kynferðislega og myrti þau síðan.
Garavito var handtekinn í apríl 1999 vegna tilraunar til nauðgunar. Málið vatt upp á sig og áður en yfir lauk hafði hann játað að hafa framið yfir 190 morð. Hann var sakfelldur fyrir 142 þeirra og dæmdur í 1.853 ára fangelsi. Fjögur morðanna framdi hann í Ekvador þar sem hann fékk 22 ára fangelsisdóm.
Þó að Garavito hafi fengið svona langan tíma getur enginn setið lengur í fangelsi en í 40 ár. Hann átti möguleika á reynslulausn á þessu ári en ekkert varð af því.
Garavito afplánaði dóm sinn í öryggisfangelsinu í Valledupar þar sem hann var hafður aðskilinn frá öðrum föngum. Töldu fangelsismálayfirvöld að aðrir fangar myndu reyna að ná til hans og koma honum fyrir kattarnef vegna þeirra hryllilegu glæpa sem hann framdi.