Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Einari Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsverði, að þegar sprenging varð í fjölda ferðamanna 2012 til 2014 hafi komi í ljós að þáverandi salernisaðstaða og tilheyrandi skólplausnir dugðu ekki til. Mjög strangar reglur gilda um fráveitu á Þingvöllum og var hreinsistöð reist með ærnum tilkostnaði fyrir þann tíma. En hún annaði ekki þessari fjölgun ferðamanna og því var farið að dæla úr henni reglulega.
Eins og fyrr sagði er úrgangurinn fluttur til Reykjavíkur og hlýst töluverður kostnaður af þessu enda margir ferðamenn sem heimsækja Þingvelli. Nemur kostnaðurinn allt að 100 milljónum á þessu ári.
Einar sagði að teljarar séu á salernunum og því sé vitað hversu margir nýta sér þau og segja megi að tæplega 80% þeirra ferðamanna sem koma á Þingvelli nýti sér salernin. „Það eru um 6-700 þúsund sem hafa farið á 40 salerni bara í sumar innan þinghelginnar,“ sagði hann.
Verið er að greina hvaða kostir eru í stöðunni en ljóst er að kostnaðurinn við að leysa fráveitumálin í þjóðgarðinum verður mikill, mun hlaupa á mörg hundruð milljónum króna.