Rússneska menningarmálaráðuneytið birti nýlega mynd af Olga Lyubimova, menningarráðherra, með brosandi sendiherra Ísraels sem sýndi það sem virðist vera samningur á milli ríkjanna um samstarf á kvikmyndasviðinu.
„Nú geta félagar frá Rússlandi og Ísrael miðlað reynslu sinni, búið til kvikmyndir saman og unnið með kvikmyndasöfn,“ skrifaði Lyubimova á Telegram að sögn Variety og bætti við að Rússa hlakki til að sjá ísraelska kvikmyndagerðarmenn taka þátt í rússneskum kvikmyndahátíðum og opinberri umræðu.
Alexander Ben Zvi, sendiherra Ísraels í Rússlandi, sagði að sögn Jerusalem Post að hann sé sannfærður um að kvikmyndagerðarfólk frá ríkjunum tveimur muni framleiða fjölda mynda saman.
Samningurinn, sem er sagður hafa verið í undirbúningi síðan 2009, varð til þess að margir hreinlega misstu andlitið af vantrú. Meðal annars starfsfólk úkraínska sendiráðsins í Ísrael. „Við vitum ekki lengur hvernig við eigum að bregðast við. Ísrael vinnur með miskunnarlausu samfélagi sem er þekkt fyrir tilraunir til að breiða út stríðsáróður með kvikmyndum. Á sama tíma og alþjóðasamfélagið einangrar Rússland til að mótmæla óásættanlegum aðgerðum landsins, virðist sem Ísrael bjóði upp á enn einn vettvanginn þar sem þetta árásargjarna sambandsríki getur dreift eitruðum hugmyndum sínum,“ skrifaði sendiráðið á Facebook.
Anna Zharova, stofnandi og forstjóri ísraelsks-úkraínska bandalagsins tjáði sig um málið á Facebook og skrifaði: „Er menningar- og utanríkisráðherra okkar orðinn algjörlega klikkaður?“