Greint var frá því í vikunni að rekstrarhagnaður Íslandshótela, fyrir afskriftir, hefði aukist um tæpar 400 milljónir milli ára á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrarhagnaðurinn var 904 milljónir króna á þessu tímabili í fyrra en hafði aukist í 1.290 milljónir króna í ár. Viðskiptablaðið greinir frá.
Haft er eftir Davíð Torfa Ólafssyni, forstjóra Íslandshótela, að fyrirtækið sé að ná vopnum sínum aftur eftir heimsfaraldurinn. „Þó kom ákveðið bakslag í þá vinnu þegar verkfallsaðgerðir Eflingar komu til sögunnar og höfðu þær áhrif á reksturinn á tímabilinu. Þá er ekki hægt að líta fram hjá hækkandi verðlagi og vaxtastigið er enn óvissuþáttur í okkar rekstri eins og annarra,“ segir Davíð Torfi.
Fjölgun ferðamanna hafi þó vegið upp þessa þætti og gott betur en það.
Í febrúar á þessu ári boðaði Efling til verkfallsgerða á Íslandshótelum og varð slagurinn nokkuð harður. Sakaði Efling meðal annars Íslandshótel um verkfallsbrot og á móti sakaði Davíð Torfi Eflingu um að hafa ekki upplýst félagsmenn sína um það tekjutap sem hlotist gæti af verkfallinu.
Fréttirnar af ofsa hagnaði Íslandshótel, meðal annars á verkfallstímabilinu, fóru því öfugt ofan í Sólveigu Önnu sem brást við með harðorðum pistli á Facebook-síðu sinni sem lesa má í heild sinni hér:
„Þetta er fólkið sem neitar að borga vinnuaflinu mannsæmandi laun. Þetta er fólkið sem knúði á um verkbann Samtaka atvinnulífsins á 20.000 Eflingar-félaga. Þetta er fólkið sem að ríkissáttasemjari fórnaði sér fyrir, fólkið sem að ríkissáttasemjari taldi svo merkilegt að hann var tilbúin til að brjóta lög og svipta Eflingar-fólk sínum grundvallarmannréttindum. Þetta er fólkið sem að stjórnvöld stóðu með í baráttu síðasta vetrar. Fólkið sem að stjórnvöld mátu svo mikilvæg að ráðherra vinnumarkaðsmála niðurlægði sig með því að leggja bókstaflega á flótta til útlanda frekar en að hitta forystu Eflingar. Fólkið sem að hefur svo mikil völd, auðvöld, í samfélagi okkar að það þurfti mótmælastöðu Eflingar-fólks við ráðherrabústaðinn til að fá 30 mínútna áheyrn með forstætisráðherra.
Þetta er fólkið sem horfir bjartsýnt til framtíðar á meðan að félagsfólk Eflingar berst í bökkum. Það er þess fullvisst að græðgin ráði ávallt för í skipan efnahagsmála þjóðfélags okkar. Og það er ekki skrítið; allt bendir jú til þess að þetta sé fólkið sem að pólitísk valdaelíta hafi valið til að stjórna efnahagslífinu.“