Í upphafi sóknarinnar þurftu Úkraínumenn að sætta sig við ljósmyndir af brennandi Bradley liðsflutningabílum. Þær sýndu að sóknin gekk ekki sem skildi en það hafði dregist að hún hæfist. Þegar hún hófst loks reyndu Úkraínumenn að sækja fram með miklum liðsafla yfir erfitt landsvæði. Það gekk ekki sem skildi og þeir urðu fyrir miklu tjóni.
En þeir virðast hafa áttað sig á að þessi aðferðafræði var ekki að virka og breyttu henni umtalsvert, svo mikið að það er hægt að sjá muninn í tölum.
New York Times segir að Úkraínumönnum hafi tekist að minnka tjón sitt mikið. Samkvæmt upplýsingum frá evrópskum og bandarískum embættismönnum þá misstu þeir allt að 20% af þeim hergögnum, sem þeir sendu á vígvöllinn, á fyrstu vikunum. Þessi hergögn eyðilögðust eða skemmdust.
Nú er hlutfallið komið niður í 10%.
Phillips P. Obrien, hernaðarsérfræðingur við St. Andrews háskólann, sagði að skýringin á þessu sé augljós. „Það eina sem ég vil segja að það hefur ekki hægt á úkraínsku sókninni. Það hefur verið dregið úr áhættusömum árásum með ökutækjum en á sama tíma hefur verið bætt í árásir sem eyðileggja rússneskt stórskotalið, skotfæri og stjórnstöðvar. Svo virðist sem Úkraínumenn hafi sett mikið af mönnum og hergögnum í þetta,“ sagði hann meðal annars í grein þar sem hann greinir gang stríðsins þessa dagana.
Eitt af því sem veitir Úkraínu forskot er drægi hinna ýmsu stórskotaliðsvopna sem Vesturlönd hafa gefið. Þau draga lengra en rússnesk stórskotaliðsvopn. Auk þess hafa Storm Shadow flugskeytin, sem Bretar gáfu, komið sér vel því þau geta náð til skotmarka á nær öllum herteknu svæðunum.
Í grein New York Times er einnig bent á að sókn Úkraínumanna hafi ekki skilað þeim stórkostlegum landvinningum. Þeir hafa náð nokkrum árangri við Bakhmut og í Zaporizjzja en þar hafa þeir sett stefnuna á Azov-hafið. En þar hafa þeir komist 8 km áfram og eiga þá eina 90 km eftir að Azov-hafinu.
Valery Zaluzhny, yfirmaður úkraínska hersins, sagði í samtali við Washington Post að herinn vanti meiri búnað til jarðsprengjueyðingar til að geta breytt stöðunni mikið.