Ekki er vitað með vissu hversu margir af þessum hermönnum eru nýkomnir á svæðið og hversu margir hafa verið þar fram að þessu.
Norska ríkisútvarpið segir að Hanna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, hafi sagt að Rússar reyni nú að sækja fram í Kharkiv, að borginni Kupjansk. „Við verjumst. Harðir bardagar standa yfir og staðan á vígvellinum breytist margoft á degi hverjum,“ sagði Maljar.
Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að rússneskar hersveitir hafi sótt fram um tvo kílómetra. Úkraínsk yfirvöld segja stöðuna „flókna“ en þeim hafi tekist að halda aftur af Rússum.
Líklegt má telja að Rússar séu nú að gangsetja sókn á þeim svæðum sem Úkraínumenn náðu úr klóm þeirra í haust.
Gagnsókn Úkraínumanna hefur gengið hægt en margir höfðu vonast til að hún myndi ganga jafn hratt og vel og sókn þeirra á síðasta ári. Þeir hafa náð nokkrum ferkílómetrum lands úr klóm Rússa en Rússar hafa einnig sótt fram á nokkrum vígstöðvum.
Margir vestrænir hernaðarsérfræðingar telja að Úkraínumenn séu að „þreifa fyrir sér“ og læra á ný vopn sem þeir hafa fengið frá Vesturlöndum. Úkraínsk yfirvöld segja að það sé meðvitað að hægt sé sótt fram, það sé gert til að forðast mikið mannfall.
Það hefur einnig hægt á sókninni að Rússar hafa komið gríðarlegum fjölda af jarðsprengjum fyrir og hafa grafið sig niður í varnarstöðu. Einnig þurfa Úkraínumenn að hafa hugann við að koma í veg fyrir að Rússar geti sótt fram í Kharkiv. Því hefur verið haldið fram að meginverkefni Úkraínumanna þessa dagana sé að ráðast á og veikja birgðaflutningalínur Rússa og stjórnstöðvar þeirra.
Á leiðtogafundi NATO í Vilnius nýlega var Úkraínumönnum heitið langdrægari flugskeytum en þeir hafa fengið til þessa. Er þar um að ræða frönsk og bresk flugskeyti sem draga allt að 300 km. Eru Úkraínumenn sagðir hafa fengið nokkur slík í hendurnar nú þegar. Þetta veitir þeim tækifæri til að ráðast á Rússa langt að baki fremstu víglínu.
Einnig er þjálfun úkraínskra flugmanna á F-16 orustuþotur að hefjast á Vesturlöndum. Bjartsýnustu spár gera ráð fyrir að F-16 vélar verði komnar á flug yfir Úkraínu fyrir áramót.
Ekki er útilokað að yfirstjórn hersins vilji ekki senda öll vopn sín og hersveitir á vígvöllinn nú og vilji bíða eftir F-16 vélunum og þar með betri stöðu í loftinu.
Það er því hugsanlegt að úkraínska stórsóknin hefjist síðar en rætt hefur verið um, jafnvel ekki fyrr en í haust eða vetur.