Breska varnarmálaráðuneytið skýrði frá þessu nýlega í daglegri stöðuuppfærslu sinni um gang stríðsins.
Fram kemur að flest tilfellin, sem hefur verið tilkynnt um, hafi átt sér stað nærri Donetsk. Er þetta sagt hafa byrjað nokkrum dögum eftir að téténskar hersveitir komu þangað til að aðstoða rússneskar hersveitir.
Ráðuneytið segir að líklega séu téténskar hersveitir frumkvöðlar í beitingu þessarar aðferðar. Svipuðum aðferðum var beitt í janúar af téténskum hermönnum sem eru andsnúnir Rússum og berjast með Úkraínumönnum.
Téténskir hermenn eru þekktir fyrir að beita þessari aðferð en hún kom fram á sjónarsviðið á tíunda áratugnum þegar henni var beitt í stríðum í Téténíu.
Flest þessara mjög svo sprengifimu ökutækja springa áður en þau komast í mark. Annað hvort lenda þau á jarðsprengjum eða þá að Úkraínumenn skjóta á þau.
Varnarmálaráðuneytið segir að talið sé að þessar öflugu sprengingar hafi sálræn áhrif á úkraínsku hermennina.