En hann á enn nokkra góða vini sem standa honum nærri, aðallega af því að þeir njóta góðs af því að vera undir verndarvæng hans.
B.T. ræddi nýlega við Mark Galeotti, sem er breskur sérfræðingur í málefnum Rússlands, um vinahóp Pútíns. Hann sagði að áður hafi Pútín haft fólk í kringum sig sem var honum ekki alltaf sammála en nú sé það horfið á braut. Ástæðan fyrir því er að hans sögn ekki síst hvernig Pútín er sjálfur og hvernig hann hegðar sér.
„Það voru margir innan kerfisins sem vissu að það væri slæm hugmynd að ráðast inn í Úkraínu en maður færir Pútín ekki slæmar fréttir,“ sagði Galeotti.
Hann sagði að meðal hinna fáu vina sem Pútín á enn séu til dæmis Nikolai Patruchev. Hann er 71 árs og er ráðherra öryggismála. Honum er stundum lýst sem hauki haukanna í Kreml. Þeir hafa þekkst árum saman. Áður en Patruchev tók við sem ráðherra öryggismála árið 2008 var hann yfirmaður leyniþjónustunnar FSB en því embætti tók hann við af Pútín. Patruchev ræður miklu um hvaða upplýsingar Pútín fær um rússnesk öryggismál. Eini yfirmaður hans er Pútín og því er hann mjög valdamikill.
Annar vinur Pútíns er Juri Kovaltchuck, betur þekktur sem bankastjóri Pútíns. Eignir hans nema um 2,6 milljörðum dollara að mati Forbes. Hann getur þakkað Pútín fyrir auðæfin en í skjóli Pútíns hefur hann getað sópað að sér auð, eins og raunar fleiri vinir Pútíns. Þeir hafa þekkst áratugum saman. Kovalchuck er sagður vera einn af helstu hvatamönnum innrásarinnar í Úkraínu. Hann á sér sama draum og Pútín um að gera Rússland að stórveldi á nýjan leik.