Á næstunni munu fara fram formlegar umræður á vegum írskra stjórnvalda um hlutleysi Írlands í varnarmálum. Írland hefur skilgreint sig sem hlutlaust ríki alveg frá því að það fékk sjálfstæði frá Bretlandi en í hverju hlutleysið hefur nákvæmlega falist hefur tekið breytingum með tímanum en enn er þó lykilatriði að Írland gerist ekki aðili að hernaðar- eða varnarbandalögum með öðrum ríkjum. Til að mynda hefur Írland ekki gerst aðili að Atlantshafsbandalginu (NATO).
Forseti Írlands, Michael D. Higgins, hefur gagnrýnt þessar komandi umræður um mögulegar breytingar á hinni langlífu hlutleysisstefnu og sagt Írland hafa fjarlægst hana hættulega mikið. Samkvæmt frétt Irish Times hafa þessi afskipti forsetans ollið titringi hjá æðstu mönnum ríkisstjórnarinnar.
Forsetaembættið írska er fyrst og fremst táknrænt og forsetinn hefur takmörkuð völd. Það eru ríkisstjórnin og þingið sem hafa völd til að móta opinbera stefnu í málefnum Lýðveldisins Írlands.
Forsetinn, sem er kosinn beint af þjóðinni á 7 ára fresti, hefur hins vegar fullt málfrelsi. Embættið var fyrst sett sett á laggirnar 1938 og almennt hafa forsetar forðast að gagnrýna störf og stefnu sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni. Framan af voru í öllum tilfellum ræður forsetans sendar ríkisstjórninni til yfirlestrar og samþykkis. Það tíðkast ekki lengur en venjan hefur þó enn verið sú að forsetinn forðist að gagnrýna sitjandi ríkisstjórn beint.
Michael Martin, varnarmála-, utanríkis-, og aðstoðarforsætisráðherra Írlands, hefur sagt að það væru alvarleg mistök að endurskoða ekki varnarstefnu Írlands.
Michael D. Higgins hefur einnig verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um Louise Richardson, prófessor í stjórnmálafræði, sérfræðing í hryðjuverkum og fyrrverandi rektor Oxford-háskóla. Richardson var skipuð formaður samráðsvettvangs sem ætlað er að ræða hlutleysisstefnuna og leggja fram tillögur til breytinga. Þingmaður og fyrrum utanríkisráðherra, Charlie Flanagan sagði ummælin fela í sér algjörlega ónauðsynlega árás.
Higgins sagði Richardson vera manneskju með stóran titil. Richardson var heiðruð með einni æðstu orðu Bretlands og ber titilinn Dame of the British Empire (DBE). Sagði Higgins að titillinn væri flottur en hann sjálfur hefði getað stungið upp á nokkrum aðilum til að stýra samráðsvettvangnum.
Irish Times beindi spurningum um ummælin til Richardson en þeim var vísað til utanríkisráðuneytis Írlands sem svaraði þeim ekki beint
Lét Higgins þau ummæli falla í fjölmiðlum að samráðsvettvangurinn, sem mun standa fyrir umræðum á opinberum vettvangi um hlutleysisstefuna, fela í sér að skriðið væri frá því að Írland hefði trú á utanríkisstefnu sinni og það ylli honum áhyggjum.
Hann sagði utanríkisstefnu Írlands lengi hafa falið í sér jákvætt hlutleysi og fela í sér rétt landsins til að tilheyra þeim bandalögum sem það vill svo lengi sem þau standi ekki fyrir herskárri stefnu.
Neale Richmond, þingmaður og aðstoðarráðherra, sagði að forsetinn hefði farið ansi nálægt því að ganga lengra en völd hans leyfðu með ummælum sínum. Sagði Richmond forsetann hafa reynt að móta stefnu ríkisstjórnarinnar og gengið gegn hinni sterku hefð um að forsetar lýðveldisns gagnrýndu ekki stefnu ríkisstjórnarinnar.
Michael Martin, varnarmála-, utanríkis-, og aðstoðarforsætisráðherra, hefur bent á að öll ríki Evrópu hefðu endurskoðað utanríkis- og varnarstefnu sína eftir innrás Rússlands í Úkraínu og Írland væri ekki öðruvísi. Hann sagði samráðsvettvanginn munu ræða hlutleysisstefnuna á marghliða grunni og að ríkisstjórnin hefði ekki í hyggju að leggja niður stefnu Írlands um hernaðarlegt hlutleysi.