En hvað ef Donald Trump verður kjörinn forseti Bandaríkjanna á næsta ári og hættir stuðningi við Úkraínu, hvað gerist þá?
Þessari spurningu varpaði lesandi vefs Sky News fram og var hernaðarsérfræðingurinn Sean Bell til svara.
Hann benti á að Bandaríkin séu það ríki sem hefur lagt langt mest af mörkum til Úkraínu frá upphafi stríðsins. Á eftir Bandaríkjunum koma Bretar en framlag þeirra er um 10% af því sem Bandaríkjamenn hafa veitt í aðstoð.
Í svari sínu sagði Bell að ef Bandaríkin hætta stuðningi sínum verði mjög stórt gat sem verði erfitt fyrir aðra að fylla.
Hann benti á að hins vegar sé heimur stjórnmálanna þannig að ólíklegt sé að allt í einu verði klippt á hernaðaraðstoðina. Allar þjóðir hafi ákveðin forgangsverkefni innanlands sem verði að finna flöt á um leið og stutt er við bakið á Úkraínu. Flestar þjóðir muni eiga erfitt með að halda uppi sama stuðningi við Úkraínu að eilífu.
Á móti komi að Rússar muni eiga erfitt með að halda dampi á vígvellinum og því skipti gagnsókn Úkraínumanna miklu máli.
Á pólitíska sviðinu muni Bandaríkin fagna því ef Evrópuríki taka að sér stærra leiðtogahlutverk varðandi málefni Úkraínu.