Samkvæmt frétt The Guardian þá sagði Rasmussen að Pólland og önnur ríki séu í fullum rétti til að senda herlið til Úkraínu og ef aðildarríki NATO nái ekki samstöðu um öryggistryggingu fyrir Úkraínu sé ekki útilokað að sum ríki muni missa þolinmæðina og grípa sjálf til aðgerða.
Rasmussen á sæti í sérfræðingahópi sem veitir Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, ráðgjöf um öryggismál.
Telur Rasmussen að sérstaklega Pólland, sem á landamæri að Úkraínu, hafi þörf fyrir að taka á sig enn meiri ábyrgð vegna stöðunnar í Úkraínu. „Við vitum að Pólland er mjög staðfast í að aðstoða Úkraínu. Ég vil ekki útiloka möguleikann á að Pólland muni blanda sér enn frekar í málin og að Eystrasaltsríkin muni fylgja í kjölfarið. Hugsanlega með að senda hermenn til Úkraínu,“ sagði Rasmussen.
Aðildarríki NATO funda um miðjan júlí í Vilnius í Litáen og meðal umræðuefna verður enn frekari hernaðarstuðningur við Úkraínu og einnig verður nýr framkvæmdastjóri NATO valinn.
Rasmussen sagði að á þessum fundi vænti ríkin á austurvæng bandalagsins þess að komist verði að niðurstöðu um eitthvert form öryggistryggingar til handa Úkraínu.
Hann sagði að eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi miklar tilfinningar byggst upp hjá pólsku þjóðinni: „Við skulum ekki vanmeta tilfinningar pólsku þjóðarinnar. Pólverjum finnst að Vestur-Evrópa hafi allt of lengi komið sér hjá því að hlusta á viðvaranir þeirra um hið raunverulega rússneska hugarfar.“