fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Tvímenntu á sleða niður Kamb á „svakalegum hraða“ og höfnuðu á ljósastaur

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. apríl 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona freistaði þess að fá viðurkennda skaðabótaskyldu TM trygginga vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í janúar árið 2016 er hún hafnaði á ljósastaur eftir að renna sér niður sleðabrekkuna Kamb, sem einnig er kölluð skjaldbakan, í Innri Njarðvík. 

Taldi Reykjanesbæ ábyrgan

Konan rakti að þennan dag í janúar hafi hún verið að renna sér niður sleðabrekkuna Kamb með þáverandi unnusta sínum. Hafi þau tvímennt á einum sleða og í einni bununni fór ekki betur en svo að þau lentu á ljósastaur sem staðsettur var við göngustíg við enda brekkunnar. Í slysinu hafi hún tognað á mjóbaki og þurft að vera frá skóla og vinnu í eina viku.

Í málinu er rakið að hóllinn kambur hafi verið útbúinn á árunum 2005-2006 úr jarðefni sem kom til vegna byggingaframkvæmda í nágrenninu. Hafi hóllinn verið notaður sem almennt útivistarsvæði og útsýnispallur en á toppi hans sé að finna bílastæði, útsýnisaðstöðu og göngustíg. Slysið átti sér stað norðan megin hólsins þar sem brekkan endar með sléttu svæði þar sem voru ljósastaurar við göngustíg sem liggur hringinn í kringum hólinn.

Taldi konan að hún ætti rétt til skaðabóta frá TM tryggingum vegna þess að Reykjanesbær hafi ekki fyllilega tryggt öryggi á svæðinu. Hafnaði tryggingarfélagið þeirri kröfu og var sú ákvörðun síðar staðfest af úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

Vísaði konan til þess að ákvæði reglugerðar um öryggi á leiksvæðum hafi ekki verið fylgt. Rík ástæða hafi þó verið til þess þar sem um manngerðan hól hafi verið að ræða sem frá upphafi hafi verið ætlað að vera svæði þar sem börn gætu rennt sér á sleða og þotum. Aðstæður hafi þó verið hættulegar þar sem ljósastaurar væru staðsettir of nærri brekkunni. Ljósastaurar þessir væru lágir og sjáist illa í vetrarmyrkri. Engar merkingar hafi varað við þeim og ekki var búið að setja upp höggdempara í kringum þá, fyrir utan dekk sem tímabundið voru sett utan um fáeina ljósastaura – en það var gert eftir slysið sem til álita kom í máli þessu. Tveir ljósastaurar hafi að auki verið fjarlægðir eftir slysið og ekki standi til að setja þá upp aftur.

Henni sjálfri um að kenna

TM tryggingar bentu þó á að slysið mætti rekja til óhappatilviks sem ekki væri skaðabótaskylt. Umrædd reglugerð eigi ekki við um hólinn sem sé ekki skipulagður sem leiksvæði. Hóllinn sé samkvæmt aðalskipulagi opið svæði ætlað til almennrar útivistar og sé jafnframt útbúinn sem útsýnispallur. Konan hafi ekki verið barn þegar slysið átti sér stað og megi ganga út frá því að fullorðnir sýni tilhlýðilega aðgát á leiksvæðum. Svæðið hafi ekki verið óviðunandi eða óforsvaranlegt. Eðlilegt sé að ljósastaurar séu á svæði sem þessu til að lýsa upp göngustíga. Það sé enda til þess fallið að draga úr slysahættu.

Tjón konunnar mætti því alfarið rekja til hennar eigin háttsemi og hefði hún sýnt eðlilega aðgát hefði hún átt að sjá ljósastaurinn og þar af leiðandi forðast að renna sér á of miklum hraða niður brekkuna í nálægt við hann. Ljóst sé að tvær manneskjur á sama sleða leiði til þess að hraði hans verði meiri en ella og hefði konunni mátt vera ljós sú hætta sem skapaðist við þetta hátterni. Hafi konan sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og fyrirgert mögulegum bótarétti sínum með áhættutöku.

Fyrrverandi unnustinn lýsti því svo fyrir dómi að þau hafi verið saman á sleðanum á „svakalegum hraða“ og mikill klaki hafi verið í brekkunni og því þó runnið lengra en vanalega. Þegar hann hafi séð í hvað stefndi hafi hann kastað sér af sleðanum og hann við það snúist við og unnustan þá hafnað á ljósastaurnum með bakið beint í staurinn.

Dómari tók undir með tryggingafélaginu og sagði að frágangur á slysstað hafi verið forsvaranlegur. Konan hafi verið á sleða sem sé ætlaður börnum og unglingum í sleðabrekku sem sé ætluð börnum. Hún hafi vitað af ljósastaurnum og engu síður ákveðið að renna sér niður brekkuna í átt að honum ekki bara ein heldur með þáverandi unnusta sinn með sér. Konan hafi verið fullorðin og hefði mátt gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í því að tvímenna með öðrum fullorðnum einstaklingi á sleða ætluðum börnum í brekku með svelli ætlaðri börnum. Því megi rekja orsakir slyssins til hennar eigin háttsemi sem hafi ekki verið í samræmi við aðstæður. Því var bótaskyldu hafnað.

Dómurinn í heild sinni 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur
Fréttir
Í gær

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Í gær

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu