Samkvæmt heimildum DV hefur yfirvöldum ekki tekist undanfarna daga að ná í Eddu Björk Arnardóttur né syni hennar þrjá sem flytja á til Noregs til föður þeirra sem hefur forræði yfir þeim.
Edda Björk nam syni sína brott frá Noregi fyrir um ári síðan og flutti þá til Íslands í einkaflugvél. Segir hún að velferð þeirra sé ógnað í Noregi. Bæði héraðsdómur og Landsréttur hafa úrskurðað að synirnir skuli teknir úr umsjá hennar og afhentir föðurnum í Noregi sem fer með forræði þeirra. Hæstiréttur hefur síðan hafnað málskotsbeiðni Eddu í málinu. Til stóð að taka drengina úr umsjá Eddu fyrir páska og flytja þá til Noregs. Það hefur ekki tekist.
Í viðtali við mbl.is í mars sagði Edda að þessi ákvörðun væri þvert á vilja drengjanna sjálfra og þeim líði vel á Íslandi. Samkvæmt norskum dómsúrskurði skal faðir drengjanna fara með forsjá þeirra einn og hafa þeir lögheimili hjá honum. Edda hefur umgengnisrétt við þá upp á samtals 16 klukkustundir á ári. Edda hefur lýst því yfir að hún ætli með málið alla leið í Mannréttindadómstól Evrópu, gerist þess þörf.
Samkvæmt heimildum DV tók Edda drengina úr skóla fyrir páska. Ekki hefur tekist að ná í hana til að fullnusta aðfarargerðina. Ekki er vitað hvar Edda og synirnir halda sig. DV náði sambandi við Eddu sem vildi ekki tjá sig um málið.