Síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög erfiðir fyrir marga af þeim 104 milljónum manna sem búa í Egyptalandi.
Abdel-Fattah al-Sisi, forseti, komst til valda í valdaráni hersins 2013. Á valdatíma hans hefur efnhagur landsins þanist út en allt var þetta fjármagnað með lántökum. Lánin voru nýtt til risaverkefna á borð við nýjar forsetahallir og nýtt stjórnsýsluhverfi austan við Kaíró. Fyrirtæki, sem herinn á, hafa auðgast mjög á þessu en þau hafa fengið sífellt stærri hluta af efnahagskökunni á valdatíma al-Sisi.
En þessi vöxtur hefur ekki skapað störf eða nýtt húsnæði og flestir landsmenn eru orðnir fátækari en áður.
Jótlandspósturinn segir að nú hafi þetta efnahagsmódel hrunið. Á tæpu ári hefur gengi egypska pundsins lækkað um helming. Verðbólgan er rúmlega 20%. Þetta gerir að verkum að ríkissjóður á í erfiðleikum með að standa við greiðslur af lánum en þær nema nú rúmlega þriðjungi af fjárlögum ríkisins. Bæði opinberi geirinn og einkageirinn hafa verði beðnir um að skera niður.
Rabah Arezki, fyrrum hagfræðingur við Alþjóðabankann sem starfar nú hjá Harvard Kennedy School, segir að Egyptaland standi frammi fyrir fjárhagslegu og efnahagslegu hruni.
Þessi niðursveifla hófst þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Þá hættu rússneskir og úkraínskir ferðamenn að koma til landsins en þeir voru um þriðjungur þeirra ferðamanna sem heimsóttu landið árlega. Auk þess hvarf stór hluti þess hveitis sem Egyptar flytja inn til að brauðfæða þjóðina. Þar á undan höfðu tvö erfið ár af völdum heimsfaraldursins sett mark sitt á landið. Allt þetta varð til þess að taugaóstyrkir fjárfestar drógu rúmlega 20 milljarða dollara út úr landinu.
Það hafði síðan dómínóáhrif. Ríkisstjórnin setti hömlur á innflutning vegna gjaldeyrisskorts. Vörur fyrir milljónir dollara voru þá fastar í tolli því einkafyrirtæki gátu ekki greitt fyrir þær. Svona hélt þetta áfram koll af kolli.
Al-Sisi hefur kennt stríðinu í Úkraínu og heimsfaraldrinum um þessar hremmingar og bent á að öll heimsbyggðin glími við erfiðleika þessa stundina.