Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf, er hvergi af baki dottinn varðandi rekstur heimilisins og stefnir á að opna það að nýju. „Ég er hræðilega þrjóskur maður,“ segir Arnar Gunnar en hann er nýjasti gestur þáttarins Spjallið með Frosta Logasyni sem sýndur er á hlaðvarpsveitunni Brotkast.
Eftir að bruni kom upp í húsnæði áfangaheimilisins í Vatnagörðum fyrr í þessum mánuði hefur Arnar verið gagnrýndur fyrir að reka rándýrt úrræði fyrir einn veikasta hóp samfélagsins og að heimilið sé þar auki stórhættuleg dauðagildra vegna ónægra brunavarna. Þessu hafnar Arnar með öllu og segir þá umræðu vera á miklum villigötum.
Arnar segist ekki reka áfangaheimilið í hagnaðarskyni enda dugi húsaleigan sem hann rukkar rétt fyrir kostnaði við rekstur húsnæðisins. Hann segist við ákvörðun um leiguverð hafa ákveðið að reyna alltaf að vera örlítið ódýrari heldur en önnur sambærileg áfangaheimili og við það hafi hann staðið. Arnar segist frá upphafi hafa óskað eftir aðstoð frá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins við reksturinn til að geta haft þarna vakt allan sólarhringinn en ekki fengið. Hann hafi því sjálfur, ásamt syni sínum og kærustu hans, verið í sjálfboðavinnu þarna allan þann tíma sem heimilið hafi verið í rekstri.
Um brunann sem átti sér stað fyrr í þessum mánuði segir Arnar að ábendingar um úrbætur slökkviliðsins vegna brunavarna hefðu engu breytt um það atvik. Þar hefði verið um íkvekju að ræða og umræddar úrbætur hefðu aldrei geta afstýrt því.
Arnar fullyrðir að ekki sé til nein verri félagsleg staða á Íslandi en að vera virkur heimilislaus fíkill. Þess vegna hafi hann á sínum tíma ákveðið að taka á móti fólki sem ekki væri orðið edrú, með því skilyrði þó að viðkomandi mundi sækja um að komast í meðferð. Þetta hafi hann ákveðið þegar hann fór að taka eftir því að enginn væri að hjálpa þessu fólki, sem væri bæði fárveikt og hefði í engin hús að venda. Arnar segist frá upphafi hafa fundið fyrir miklum fordómum gagnvart þessum skjólstæðingum sínum, meðal annars frá velferðarsviði Kópavogs sem voru nágrannar hans þegar hann rak heimili fyrir þennan hóp í Fannborg í Kópavogi.
Hann bendir á að samkvæmt mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sem Ísland er aðili að, skuldbindi hvert þjóðfélag sig til þess að veita öllum þegnum sínum húsnæði. Arnar segir rétt heimilislausra fíkla til að hafa þak yfir höfuð sér eiga að vera ríkari en réttur fólks sem ekki vill hafa þennan hóp nærri sér. Það virðist þó ekki vera raunin hér á Íslandi.
Hér má sjá brot úr þættinum en þáttinn í heild sinni er hægt að nálgast á brotkast.is.