Kona sem lá um skeið þungt haldin á bráðadeild af völdum ofskammts fíkniefna lét lífið. DV greindi frá atvikinu í lok janúar.
Atvikið átti sér stað í Fellahverfinu í Breiðholti á heimili manns sem er þekktur í undirheimum höfuðborgarinnar. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við DV að konan hafi látist.
Hann segir nokkra aðila hafa verið handtekna á vettvangi vegna rannsóknarhagsmuna en enginn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ekki er talið að andlát konunnar hafi borið að með saknæmum hætti.