Nostra ræstingar ehf. kröfðu Stracta Hótel á Hellu (Stracta Hellu ehf) um 15 milljónir króna vegna ógreiddrar þjónustu fyrir ræstingar, í máli sem fór fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Dómur var kveðinn upp í málinu í dag, þann 11. janúar.
Stefnt var vegna þriggja ógreiddra reikninga frá hausti 2021 og fram í janúar 2022. Hæsti reikningurinn var upp á tæpar níu milljónir.
Fulltrúum ræstingafyrirtækisins og hótelsins bar engan veginn saman um málsatvik og hafði hótelið uppi ásakanir á hendur ræstingaþjónustunni. Stracta Hellu sakaði starfsfólk ræstingaþjónustunnar um að hafa eyðilagt gardínur á hótelinu með því að þvo þær við of mikinn hita þannig að þær styttust um 10 cm.
Ennfremur vísaði Stracta til þess að hótelið hefði keypt lín og handklæði frá Nostra fyrir rúmar fimm milljónir króna, greitt fyrir vörurnar en aldrei fengið þær afhentar.
Stracta benti enn fremur á að Nostra hefði ekki lagt fram nein gögn um meintan þjónustusamning milli aðilanna, ennfremur væru kostnaðarliðir í ógreiddu reikningunum sem stæðust ekki.
Það var þó niðurstaða Héraðsdóms að Stracta Hella ætti að greiða Nostra 2.153.650 krónur auk dráttarvaxta, sem og 700 þúsund krónur í málskostnað.