Vilhjálmur Freyr Björnsson, sem fyrir skömmu var sakfelldur fyrir hrottalegt ofbeldi sem hann beitti konu eftir að hafa keypt af henni vændisþjónustu, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Omega í apríl á síðasta ári. Mannlíf greindi fyrst frá þessu.
Nafn Vilhjálms var í fréttum í gær (föstudag) í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað að endurskoða ákvörðun sína um að láta hann njóta nafnleyndar í birtingu á dómnum yfir honum. Virtist nafnhreinsunin hafa verið á grundvelli þess að hann var sakfelldur fyrir vændiskaup en nöfn dæmdra vændiskaupenda eru ekki birt í dómum. Hins vegar var Vilhjálmur einnig sakfelldur fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og nauðgun.
Í viðtalinu lýsir Vilhjálmur meðal annars erfiðri æsku, fíkniefnaneyslu sinni og leið sinni til bata mánuðina fyrir viðtalið. Svo virðist sem glæpurinn gegn konunni sem hann var sakfelldur fyrir hafi verið endastöð en hann átti sér stað um ári fyrir viðtalið, eða í apríl 2021. Vilhjálmur segir: „Þetta kvöld framdi ég þann ljótasta hlut sem ég hef gert, ég beitti ofbeldi.“
Samkvæmt dóminum yfir Vilhjálmi neitaði hann sök að hluta og játaði að hluta. Krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa við brotunum. Mjög miklir og alvarlegir áverkar á konunni voru ekki í samræmi við lýsingar Vilhjálms á því ofbeldi sem hann gekkst við að hafa beitt hana. Í viðtalinu, sem og í vitnisburði fyrir dómi, lýsir Vilhjálmur því að hann hafi drukkið spritt áður en hann framdi glæpinn.
Í viðtalinu kemur einnig fram að hann hafi verið virkur í trúarstarfi þegar hann var í fíkniefnaneyslu og verið með þjónustu á Hlaðgerðarkoti og víðar.
Viðtalsþátturinn ber heitið „Dýrðar Frelsi Guðs: Hefur Guð bjargað þér?“ og má sjá hann í spilaranum hér fyrir neðan: