fbpx
Mánudagur 05.desember 2022
Fréttir

Anna Dóra segir nýjan forseta fara með rangt mál – Vildi Tómas úr stjórn og Helgi komst bakdyraleiðina inn

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 29. september 2022 09:22

Anna Dóra Sæþórsdóttir, Tómas Guðbjartsson og Helgi Jóhannesson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Dóra Sæþórsdóttir, fyrrverandi forseti Ferðafélag Íslands, segist ekki geta orða bundist vegna ítrekaðra árása og rangfærslna í sinn garð í kjölfar þess að hún sagði af sér æðsta embætti félagsins. Anna Dóra sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar afsagnarinnar þar sem hún rakti ástæðurnar fyrir ákvörðun sinni. Ágreiningur hafi komið upp í stjórn félagsins með hvernig hafi verið tekið á tilteknum málum, meðal annars málum er vörðuðu grófa kynferðislega áreitni innan félagsins, sem varð til þess að mikill samskiptavandi varði innan stjórnar.

Segir nýjan forseta fara með rangt mál

Nýr forseti FÍ, Sigrún Valbergsdóttir, skrifaði bréf til félaga FÍ þar sem hún sagði að öll mál sem komið hafi innan félagsins undanfarin ár sem varða kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti hafi verið meðhöndluð í samræmi við verklagsreglur félagsins. Þetta segir Anna Dóra vera rangt.

„Þegar ég tók við sem forseti komu í ljós mál sem ekki hafði verið tekið á, þrátt fyrir að verklagsreglur félagsins kvæðu á um annað. Eitt snerti fararstjóra sem hafði ítrekað gerst brotlegur á siðareglum félagsins í samskiptum við kvenkyns farþega í ferðum. Annað snerti stjórnarmann sem hafði verið ásakaður um alvarlegt kynferðislegt ofbeldi og áreitni, bæði í ferðum á vegum félagsins og utan þess. Framkvæmdastjóra og núverandi forseta hafði verið kunnugt um þessar ásakanir í nokkur ár án þess að bregðast við þeim á nokkurn hátt. Þvert á móti fengu þessir aðilar að halda áfram að starfa sem fararstjórar á vegum félagsins. Það var ekki fyrr en ég beitti mér, í óþökk annars stjórnarfólks, að tekið var á þessum málum,“ skrifar Anna Dóra.

Þar á hún meðal annars við Helga Jóhannesson, lögmann, sem sagði sig úr stjórn félagsins í nóvember á síðasta ári eftir að mál varðandi meinta kynferðislega áreitni hans í garð kvenna á ólíkum vettvangi, þar á meðal innan Ferðafélagsins, komu til opinberrar umræðu. Hefur Anna Dóra fullyrt að einhverjir innan stjórnar, þar á meðal Tómas Guðbjartsson læknir, hafi barist fyrir endurkomu Helga í félagið.

Þá segir Anna Dóra að annað mál hafi snert gjaldkera félagsins sem hafi að hennar sögn orðið uppvís af áreitni og ósæmilegri hegðun í ferð á vegum félagsins.

Krafðist afsagnar Tómasar úr stjórn

„Í stað þess að taka á því í samræmi við verklagsreglur var fararstjóra ferðarinnar falið að finna lausn á málinu. Öllum má vera ljóst að á milli fararstjóra og stjórnarmanns er mikill aðstöðumunur, enda kveða verklagsreglur félagsins á um allt annað ferli en að láta fararstjóra finna á lausn á slíku máli. Þegar ég fór að spyrjast fyrir um málið voru viðbrögð framkvæmdastjóra og gjaldkera að hafa uppi hótanir við málsaðila. Þetta getur ekki talist eðlileg málsmeðhöndlun og ég velti því fyrir mér hvort það mál hafi verið skráð í samræmi við reglur félagsins,“ skrifar Anna Dóra.
Hún segir ennfremur að Tómas Guðbjartsson hafi vissulega ekki barist fyrir því að fá Helga aftur í stjórn enda væri það ekki á valdi stjórnarmanna. „Hins vegar barðist hann hart fyrir því að fá hann aftur inn sem fararstjóra og sagði meðal annars: „Ferðafélagið verður að standa í lappirnar og láta ekki dómstól götunnar ráða“. Það er útilokað að annað stjórnarfólk kannist ekki við þessa umræðu. Hvaða skilaboð værum við að senda til þolenda ef viðkomandi væri aftur kominn til starfa fyrir félagið örfáum mánuðum eftir að hann var settur til hliðar? Viðkomandi fyrrverandi stjórnarmaður fann sér reyndar bakdyraleið inn í félagið með því að gerast stjórnarmaður í nýstofnuðu Ferðafélagi Rangæinga sem er ein af deildum Ferðafélags Íslands,“ skrifar forsetinn fyrrverandi.
Þá segir hún rétt að hún hafi ákveðið að mæta ekki á stjórnarfund í júní á þessu ári en ástæðan fyrir því hafi verið margra mánaða einelti og útilokun af hálfu stjórnar og framkvæmdastjóra sem gerði það að verkum að henni var farið að líða afar illa og treysti sér ekki til þess að hitta þenna hóp. „ Mér finnst ekki þægilegt að tala um þetta, en ég var með stöðugan kvíðahnút og gat ekki sofið. Ég treysti mér því ekki til að mæta á þennan fund. Ég lét þau vita af því og að ástæðan væri einelti og útilokun af þeirra hálfu.“

Framkvæmdastjórinn sagði upp

Á þeim tíma hafi hún verið búin að skrifa afsagnarbréf sitt og segir hún að meirihluti stjórnar hafi vitað af því. Hún hafi hins vegar ákveðið að gera eina atlögu enn til að leysa málin.
„Til þess að ég treysti mér til að halda áfram starfi mínu sem forseti félagsins þurfti tvennt að gerast: annars vegar að Tómas Guðbjartsson segði sig úr stjórn, en hann hafði gengið hvað harðast fram með dónaskap í minn garð, og hins vegar að ráðinn yrði nýr framkvæmdastjóri, en á þeim tímapunkti hafði ég misst trúna á Páli, bæði vegna þess hversu illa hafði gengið að fá svör við spurningum sem vörðuðu rekstur félagsins og ekki síður vegna viðhorfa hans til metoo-mála. Ég lét stjórn vita að ég myndi segja af mér ef ekki næðist samstaða um þessar aðgerðir.“
Segir Anna Dóra að í framhaldi af þessum samskiptum hafi framkvæmdastjórinn, Páll Guðmundsson, kvartað yfir einelti Önnu Dóru í sinn garð.
„Sú kvörtun barst því eftir að ég ásakaði stjórn um einelti í minn garð. Þá kvörtun dró framkvæmdastjórinn til baka snemma í þessum mánuði og vísaði í fjölmiðlum til einhvers samkomulags við mig. Ekki er um neitt slíkt samkomulag að ræða, enda hef ég ekki dregið til baka kvörtun mína um einelti stjórnar og framkvæmdastjóra í minn garð. Ég geri hins vegar ekki kröfu um að sú kvörtun verði rannsökuð enda mun ég ekki eiga í frekari samskiptum við þetta fólk eftir afsögn mína,“ skrifar Anna Dóra ennfremur.
Í áðurnefndu bréf nýs forseta, Sigrúnar Þorbergsdóttur, kemur fram að Anna Dóra hafi einhliða viljað  skipta um framkvæmdastjóra og hafið viðræður við Pál um starfslok hans  án vitundar stjórnar.
„Það er af og frá. Í mars hringdi framkvæmdastjórinn í mig og sagði starfi sínu lausu. Ástæðurnar sem hann nefndi voru þær að hann væri kominn með leiða á vinnunni og að honum þætti verkefnin sem hann var að vinna við ekki skemmtileg. Ég átti ekki í neinum viðræðum við framkvæmdastjórann um starfslok, nema til að bregðast við þessari uppsögn hans. Þessi mál voru rædd á næsta fundi stjórnar og þar komu fram ólíkar meiningar um málið. Ég dreg þó ekki dul á það að ég hef í nokkurn tíma talið gott fyrir félagið að ráðinn yrði nýr framkvæmdastjóri, meðal annars vegna þeirra ástæðna sem raktar eru að framan.“

Stjórnin reyndi ekki að leysa samskiptavandann

Anna Dóra segir óþægilegt að horfa upp á stjórn félagsins, og þá einkum Sigrúnu forseta, tala eins og öll vandamál félagsins megi rekja til hennar og að stjórn hafi ítrekað reynt að leiða samskiptamál við mig til lykta.
„Ég kannast ekki við þær tilraunir stjórnar, þvert á móti. Sigrún hefur jafnvel gefið í skyn að afsögn mína megi rekja til fyrirhugaðrar vantraustsyfirlýsingar stjórnar. Það er hins vegar þannig að ég heyrði fyrst um þá vantrauststillögu í fjölmiðlum eftir að ég birti afsagnarbréf mitt. Þegar ég horfi til baka á síðastliðið ár er ég stolt af því sem ég þó áorkaði, þrátt fyrir mikinn mótvind og andstöðu stjórnar. Kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti verður að uppræta í íslensku samfélagi og ég vona að þessi erfiða umræða um málefni Ferðafélagsins megi verða hluti af þeirri upprætingu.“

Hér má lesa yfirlýsingu Önnu Dóru í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vísindamaður sem vann með Wuhan stofnuninni segir Covid eina stærstu yfirhylmingu sögunnar – Klúður sem er afrakstur leynilegra rannsókna bandarískra stjórnvaldra

Vísindamaður sem vann með Wuhan stofnuninni segir Covid eina stærstu yfirhylmingu sögunnar – Klúður sem er afrakstur leynilegra rannsókna bandarískra stjórnvaldra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Sérlegur sérfræðingur í „fake”-aðgöngum til þess að fylgjast með konunni minni á samfélagsmiðlum“

„Sérlegur sérfræðingur í „fake”-aðgöngum til þess að fylgjast með konunni minni á samfélagsmiðlum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bandaríkin sögð íhuga að þjálfa enn fleiri úkraínska hermenn

Bandaríkin sögð íhuga að þjálfa enn fleiri úkraínska hermenn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áróðursmeistari Pútíns hvetur til árása á Noreg

Áróðursmeistari Pútíns hvetur til árása á Noreg