Að minnsta kosti tveir hópar eru villtir í þokunni við gosstöðvarnar í Meradölum og voru björgunarsveitarhópar frá suðvesturhorninu kallaðir út rétt fyrir klukkan fjögur í dag.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við Fréttablaðið að grunur sé á að fleiri séu villtir á svæðinu.
„Þetta er þannig að það er búið að vera lokað í dag. Það er svartaþola og leiðandaveiður eins og sést á vefmyndavélunum. Fjölmiðlar og lögregla hafa greint frá því í dag að það hefur verið slatti af fólki þarna í dag.“
Davíð segir að um sé að ræða um 10 manns sem eru í vandræðum á svæðinu. Þau séu villt, köld og blaut. Eins séu þarna um 10 til 15 hópar á leiðinni upp að gosstöðvunum, þrátt fyrir lokun.
Ekki sé hægt að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna þoku, en ekki séu skilyrði til að leita úr lofti.
Gosstöðvarnar hafa verið lokaðar frá því klukkan 05 í gærmorgun vegna veðurskilyrða.
Samkvæmt mbl.is var fjórum erlendum ferðamönnum bjargað af Landsbjörg rétt um klukkan 18:00 í kvöld en hafði fólkið verið komið langt út af gönguleið og týnt í þokunni. Fólkið var blautt, kalt og hrakið þegar björgunarsveitirnar komu og höfðu verið týnd í nokkurn tíma.
Ljóst er að fjöldi fólks hefur ekki virt lokun á svæðinu og er fjöldi bíla á svæðinu. Talið er að björgunarsveitirnar verði líkast til á svæðinu fram eftir kvöldi.