fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fréttir

Ugla Stefanía segir Sigmund Davíð hafa talað af vanþekkingu í Sprengisandi – „Þetta er auðvitað stórkostlega mikil þvæla“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 3. júlí 2022 19:00

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mættust í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og ræddu meðal annars um réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks.

Í þættinum talaði Helga Vala um að löggjafinn væri íhaldssamur og væri því ekki líklegur til þess að ryðja veginn til breytinga að eigin frumkvæði í málum sem þessum. Aktívistar væru betri í því en löggjafinn ætti síðan að feta veginn sem þeir ryðja. Sigmundur var sammála Helgu um að þetta væri að gerast í dag en hann var þó ósammála um að það væri gott, reyndar sagði hann að þetta væri einn helsti vandi stjórnmálanna í dag. „Vandi stjórnmálanna felst í því að stjórnmálamennirnir eru stöðugt að gefa frá sér vald og með því eru þeir að gefa eitthvað sem þeir eiga ekki, því kjósendurnir eiga valdið,“ sagði Sigmundur.

Máli sínu til stuðnings sagði Sigmundur að aktívistar hafi verið fengnir til þess að skrifa frumvörp um málaflokkinn sem þeir eru að berjast fyrir. „Þeir geta ekki gert það með því að fela einhverjum aktívistum, afmörkuðum hópi á tilteknu sviði, hvaða svið sem það er, að skrifa fyrir sig lögin – eins og hefur gerst, eins og er að gerast. Helga Vala lýsir því að þetta sé bara jákvætt, að einhverjir utanaðkomandi leiði stjórnmálin áfram, en þá erum við ekki með lýðræði. Þá getur almenningur ekki ráðið því hvernig landinu er stjórnað.“

„Stórkostlega mikil þvæla“

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks og fyrrum formaður Trans Ísland, segist hafa hlustað af tilviljun á þennan útvarpsþátt sem um ræðir. Hún heyrði Sigmund Davíð tala um að aktívistum væri falið að skrifa frumvörp og fann hún sig knúna til að svara honum.

Í færslu sem Ugla birti á Facebook-síðu sinni segir hún að Sigmundur hafi farið með „allskonar fleipur“ um lög um kynrænt sjálfræði í þættinum, að hann hafi talað ítrekað niður til réttindabaráttunnar og mikilvægi hennar í tengslum við lagasetningar. „Þar má helst nefna að hann talaði um að það hefðu verið hópar aktívista sem skrifuðu lög um kynrænt sjálfræði, og þar hefði löggjafinn verið að afsala sér völdum til þeirra,“ segir hún svo.

„Þetta er auðvitað stórkostlega mikil þvæla — og líka gríðarleg vanvirðing við það starf sérfræðinga og fagfólks sem kom að smíðum frumvarps um kynrænt sjálfræði. Sá hópur sem kom að smíðum þessa frumvarps var fólk úr grasrótinni, lögfræðingar, kynjafræðingar, félagsfræðingar, siðfræðingar, þingfólk, og sprenglært fólk og aðrir sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks.“

Ugla segir að vinnan við frumvarp um kynrænt sjálfræði hafi tekið hátt í fjögur ár og að samráð hafi verið haft við allar helstu stofnanir, hagsmunafélög, kvenréttindafélög og önnur mannréttindasamtök. „Að smætta vinnu þessa hóps niður í einhvern „hóp aktívista“ á niðrandi hátt lýsir engu nema vanþekkingu og vanþóknun hans á réttindabaráttu hinsegin fólks,“ segir hún.

„Þegar að frumvarpið fer svo í hendur ráðuneytis og inn í ferli á Alþingi þá fór það algjörlega úr okkar höndum. Þá fer frumvarpið inn í nefnd, í margar umræður á Alþingi og þar af lokum í atkvæðagreiðslu. Í því ferli breyttist ýmislegt frá frumvarpinu sem við skiluðum af okkur, enda löggjafinn með valdið til þess. Þegar kemur að atkvæðagreiðslu þá tekur þingfólk meðvitaða ákvörðun út frá því ferli og áliti sérfræðinga — og kusu nær allt þingfólk með frumvarpinu, að undanskyldum Miðflokknum. Þetta á ekkert við um þetta frumvarp, heldur væntanlega öll frumvörp, sem eru unnin í samráði við sérfræðinga á viðeigandi sviðum.“

Þá segir Ugla að staðhæfingar um að þessi lög stangist á við réttindi kvenna vera úr lausu lofti gripin þar sem öll helstu mannréttindasamtök hafi stutt frumvarpið, þar með talið Kvennréttindafélag Íslands. „Samstarf milli Kvenréttindafélagsins og Trans Íslands hefur til að mynda verið mjög gott undanfarin ár, og er TÍ eitt af þeirra meðlimum,“ segir hún svo.

„Það hlýtur að teljast vandræðalegt fyrir SDG að gera sig út fyrir að vera verndari kvenréttinda — en kynjahalli hafði ekki verið meiri í hans ríkisstjórnartíð en síðan 1999, þar sem eingöngu þrjár af níu ráðherrum voru konur. Þess má geta að hann kaus líka á móti rýmkunar til þungunarrofs á sínum tíma, og getur því seint talist vera mikill kvenréttindafrömuður, þótt fátt sé nefnt.“

„Upplýsa og fræða — í stað þess að hræða og afvegaleiða“

Undir lok færslunnar segir Ugla að tilraunir til að grafa undan réttindabaráttu trans fólks og hinsegin fólks með vísun í kvenréttindi sé „lítið annað en illa ígrunduð yfirhylming og vanþekking á þessum málfalokkum.“ Hún segir að taktík sem þessi sé sambærileg þeim aðferðum þegar réttindum öryrkja og eldra fólks er etjað gegn innflytjendum og hælisleitendum. „Þessar aðferðir eru því mjög lævísar og slóttugar, og til þess gerðar að grafa undan réttindabaráttu frekar en að vernda fólk,“ segir hún.

„Ég held það væri því betra að miðlar eins og Bylgjan myndu frekar ræða við raunverulega sérfræðinga sem búa yfir þekkingu á málaflokkum. Slíkt myndu skapa mun betri og málefnalegri umræður um þessi málefni sem eru til þess að upplýsa og fræða — í stað þess að hræða og afvegaleiða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ökumaður rafmagnshlaupahjóls grunaður um að hafa verið undir áhrifum – Meiddist töluvert þegar hún féll af rafmagnshlaupahjóli

Ökumaður rafmagnshlaupahjóls grunaður um að hafa verið undir áhrifum – Meiddist töluvert þegar hún féll af rafmagnshlaupahjóli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var misnotaður af eldri bróður sínum – „Lögreglan var aldrei að vinna með okkur, heldur alltaf að vinna á móti okkur.“ 

Var misnotaður af eldri bróður sínum – „Lögreglan var aldrei að vinna með okkur, heldur alltaf að vinna á móti okkur.“