Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að nú sé kominn tími til að hugsa íslenskt vetrarsamfélag út frá þörfum ferðamanna en ekki bara þörfum landsmanna. Hann hvetur Vegagerðina til að bæta þjónustu sína, auka upplýsingagjöf til ferðamanna og setja meiri þunga í snjómokstur en nú er.
„Það er ekki boðlegt að Mosfellsheiðin sé ekki mokuð, þessi mikilvæga ferðamannaleið. Við höfum líka gantast með að það sé ansi hart ef það þarf að setja upp kúabú við Dettifoss til að veginum þar sé haldið opnum yfir vetrartímann,“ sagði Jóhannes.
Ingólfur Axelsson, hjá Tröllaferðum, sagði að veðrið á Suðurlandi sé ekki verra nú en 2019 þegar allt var opið. Staðan sé sú að Vegagerðin hafi hvorki þann mannskap né tæki sem þurfi til að halda vetrarferðamennsku gangandi. „Ég ætla bara að kasta Vegagerðinni í Reykjavík undir rútuna, yfirstjórn Vegagerðarinnar þarf einfaldlega að stýra því betur hvar mannskapurinn starfar,“ sagði hann.
Hann sagðist hafa aflýst ferðum fyrir 200 milljónir á síðustu dögum og sagðist hann telja að hætt sé við að orðspor landsins bíði hnekki á erlendum mörkuðum vegna þessara mála.