Jón Svanberg Hjartarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar ohf. og mun hefja störf um áramótin.
Jón stundaði nám við Lögregluskólann á árunum 1993-1996 og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands frá 2018. Hann hefur þar að auki lokið stjórnunarnámi við Lögregluskólann ásamt námi í mannauðsstjórnun hjá Endurmenntun HÍ. Jón Svanberg starfaði sem lögreglumaður og varðstjóri hjá Sýslumanninum á Ísafirði og lögreglunni á Vestfjörðum ár árunum 1993-2009. Hann var svo framkvæmdastjóri Hvíldarkletts ehf. (síðar Iceland Pro–Fishing) á árunum 2009-2013, svo framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2013-2021. Jón er í dag fagstjóri aðgerðarmála hjá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra þar sem hann sinnir meðal annars verkefnastjórn við framkvæmd stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum og hefur umsjón með Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna.
Núverandi framkvæmdastjóri, Þórhallur Ólafsson, varð sjötugur á árinu og lætur af störfum um áramótin eftir að hafa verið framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar frá árinu 1999 og á þeim tíma leitt starfsemi og uppbyggingu 112 og Tetra kerfisins um land allt. Hann hlaut nýverið viðurkenningu frá viðbragðsaðilum í landinu fyrir frumkvöðulsstarf í neyðarsímsvörun og uppbyggingu neyðar- og öryggisfjarskipta á Íslandi.