fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Gunnar Þór segir ástandið á Skagaströnd stórhættulegt – „Ég hugsa hvort Veðurstofunni sé alveg sama um norðvestan hornið?“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 24. nóvember 2022 13:56

Gunnar Þór Gunnarsson. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Þór Gunnarsson, íbúi á Skagaströnd, segist hafa fengið sig fullsaddan á Veðurstofu Íslands. Hann segir óásættanlegt að engin veðurstöð sé á svæðinu og því engar viðvaranir þegar það er gífurlegt hvassviðri á svæðinu.

Eins og í gær mældist mest vindur fimmtíu metrar á sekúndu, en mælirinn sem Gunnar á fer ekki hærra  og því gæti verið að vindhviður hafi verið enn sterkari. Hann segir að þetta sé stórhættulegt og rifjar upp að í svipuðu hvassviðri hafi það komið fyrir að þak fauk af í heilu lagi af sumarhúsi hans á Skagaströnd, en þá var engin veðurviðvörun líkt og nú.

„Í mörg ár höfum við fengið storma hér á Skagaströnd en engar viðvaranir í gildi. Ég er sjálfur búinn að kaupa mér veðurstöð og setti upp á þak hjá mér. Hún mælir mest fimmtíu metra á sekúndu og fór í hámarkið hérna í gærkvöldi,“ segir Gunnar Þór í samtali við DV.

„Og engin viðvörun var á svæðinu. Meðalvindurinn í gær var 39,9 metrar á sekúndu en Veðurstofa Íslands segir 13-18 metrar á sekúndu í sinni spá. Þetta er stórhættulegt fyrir fólk sem býr á þessu svæði og ég hef fengið mig fullsaddan á þessu. Ég hef hringt hvert einasta ár í Veðurstofuna og það er aldrei neitt gert í þessu. Það er engin veðurstöð frá þeim hérna, nema úti á Blönduósi og Skagatá,“ segir hann.

Gunnar Þór Gunnarsson. Aðsend mynd.

Sterkur og hvass vindur

Gunnar Þór bendir á að vegna fjallanna í kring og aðstæðna verður til mjög kraftmikill vindur á svæðinu, sérstaklega þegar það er austanátt.

„Hlutir fljúga eins og ég veit ekki hvað. Þetta er stórhættulegt, eins og fyrir börn sem ganga í skóla og hvað sem það er. Núna eru 18 metrar á sekúndu í hviðum og 16 metrar í stöðugum vindi og í gær var vindur um 35 metra og fór ekki undir 20 metra í allan daginn,“ segir hann og bætir við að engin viðvörun hafi verið við gildi á Veðurstofu Íslands á þeim tíma.

„Ég hringdi alveg kolvitlaus í þau í gær því ég var svo reiður. Ég var ekki að reikna með stormi en í gærmorgun sló í 47,5 metra á sekúndu og í nótt fór það upp í 50 metra, getur vel verið að það hafi farið hærra en mælirinn minn fer ekki hærra. Hlutir sem hafa ekki hreyfst síðastliðna þrjá mánuði fuku um koll.“

Hann birti mynd af veðurstöðinni sinni á Facebook sem sýnir mælingarnar í nótt, sem má sjá hér að neðan.

Gunnar segist ekki vera búinn að fara út að skoða almennilega ástandið eftir hvassviðrið í nótt og viðurkennir að hann sé ekki spenntur fyrir því. „Mig langar ekki að fara upp á höfðann og sjá hvað er mikið af rusli þar núna,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann sé smeykur fyrir vetrinum svarar Gunnar játandi. „Að maður geti ekki treyst á það að þeir geti sett út viðvörun eins og á öðrum landshlutum,“ segir hann og bætir við að vandamálið sé ekki nýtt.

„Mamma mín ólst upp hérna og hefur kvartað undan þessu statt og stöðugt í áratugi. Það er aldrei gert neitt í þessu.“

Þak fauk af húsi í heilu lagi

„Ég er með þrjú sumarhús sem ég leigi út hér og ég var skíthræddur um að eitthvað húsið myndi springa,“ segir Gunnar. En slíkt hefur áður gerst fyrir rúmlega áratug þegar Gunnar var tiltölulega nýbúinn að flytja sumarhús á svæðið og bjó enn í Reykjavík. Þakið fauk af í heilu lagi en sem betur fer var enginn í húsinu og enginn særðist.

„Þetta var um 2009, þá sprakk hurðin inn af húsinu og þakið fór af í heilu lagi. Við erum að tala um með timbrinu og öllu saman,“ segir hann og bætir við að engin viðvörun hafi verið í gildi og því ekkert búið að undirbúa húsin undir stormveður.

Gunnar Þór Gunnarsson. Aðsend mynd.

„Erum við ekki partur af Íslandi?“

Gunnar Þór segir að þetta hefur haft áhrif á hann og lífsgæði hans. „Ég var vakandi í alla nótt og er öryrki með gigtarsjúkdóm og þetta er ekki að hjálpa manni í því. Ég vaknaði stífur, er bara fastur í dag, því þetta er óþægilegt,“ segir hann.

„Maður fær sig fullsaddan af þessu. Eins og ég sagði við hana á Veðurstofunni í gær: „Erum við ekki partur af Íslandi? Ég skil þetta ekki alveg, er þetta ekki veðurstofa Íslands?“ Ég hugsa bara hvort Veðurstofunni sé alveg sama um norðvestan hornið? Og stundum þegar það er viðvörun er blankalogn hérna. Ég skil nú ekki til hvers þessi Veðurstofa Íslands er starfandi yfir höfuð.“

Gunnar Þór segir að hann og fjölskylda hans þekkja svæðið og aðstæður en mikil vonbrigði eru í því að veðurstofan sinni ekki þessum landshluta líkt og öðrum.

„Mamma ólst upp hérna og langafi minn byggði þetta hús þannig við þekkjum alveg aðstæður og vitum alveg hvernig það er. En þegar engin viðvörun eða nokkuð er sett upp þá getur maður orðið svolítið svekktur út í það að það sé ekki betri spámenn hérna í þessu. En þetta er bara vegna þess að það er engin veðurstöð frá Veðurstofu Íslands hérna í um 100 km kafla liggur við. Þetta er allavega um 60 km á milli veðurstöðvarinnar á Blönduósi og til þeirrar á Skagatá.“

DV hafði samband við Veðurstofu Íslands en engin svör bárust áður en fréttin birtist.

Uppfært:

Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri Athugana- og tæknisviðs, sendi eftirfarandi svar vegna málsins:

„Veðurstofa Íslands rekur í dag um 160 sjálfvirkar veðurstöðvar um allt land. Þeim er yfirleitt valin þannig staður að þær svari sem best veðri fyrir „stórt“ landsvæði, en síður til þess að mæla öfga í veðri vegna staðhátta eða landslags. Til þess eru notuð veðurlíkön sem taka tillit til slíkra aðstæðna. Veðurstöðvarnar eru síðan notaðar til kvörðunar og sannprófunar á því sem líkönin gefa, en gefa vissulega upplýsingar um veðrið á þeim stað sem þær eru.

Þegar veðurstöð og þá sérstaklega vindhraðamæli er valin staður, er mæling gerð í 10 m hæð og reynt að gæta þess að mannvirki eða annað sem getur magnað upp vind sé ekki innan 100 m radíus frá mastrinu, enda getur slíkar hindranir verið bæði til þess að draga úr vindi eða magna hann upp.

Veðurstofa Íslands hefur nýverið sett upp þriðju veðursjána (e. weather radar) á Selfelli yst á Skaga (fyrir voru veðursjár á Miðnesheiði og Fljótsdalsheið), sem kemur til með auka verulega gæði veðurspáa fyrir norðurland og gefa upplýsingar um veður sem er í vændum, enda sjá veðursjarnar veðurkerfi í mikilli upplausn í allt að 120 km fjarlægð, bæði úrkomu, úrkomutegund og vind.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“