fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
Fréttir

Agnes sakfelld fyrir meiðyrði

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 15. nóvember 2022 14:13

Agnes Bragadóttir í héraðsdómi. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Agnes Bragdóttir hefur verið sakfelld fyrir meiðyrði gegn Aldísi Schram. Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 14 í dag. Ummæli Agnesar um Aldísi á Facebook árið 2021 voru öll dæmd dauð og ómerk. Agnes var jafnframt dæmd til að greiða Aldísi 600 þúsund krónur í miskabætur og um 1,5 milljónir í málskostnað.

Ummælin féllu í kjölfar máls sem höfðað var á hendur Jóni Baldvin Hannibalssyni vegna meintrar kynferðislegrar áreitni við Carmen Jóhannsdóttur. Agnes hélt því fram að málið væri runnið undan rifjum Aldísar og sakaði hana auk þess um kynferðislega áreitni í sinn garð fyrir áratugum síðan. Í færslunni sagði:

„Hætti Aldís ekki sínum lygum og óþverraskap í garð BSchr og JBH þá mun ég gefa hér, á þessum vettvangi, nákvæma lýsingu á því, hvernig hún reyndi að nauðga mér á læstri sjúkrastofu sinni á deild 33 geðdeild, þar sem ég algörlega skíthrædd, var læst inni með froðufellandi kynlífsbrjálaðri graðkerlingu, þegar ég var að gera það sem BSchr og JBH báðu mig um að gera, sinna dóttur þeirra, sýna vináttu og væntumþykju, þegar þau voru svo langt í burtu.“

Um Jón Baldvin og Bryndísi sagði Agnes í þessari færslu sem hefur verið tekin niður af Facebook:

„…verið mínir bestu vinir, í svo ótrúlega langan tíma, og reynst mér sem slíkir allan tímann, án þess að nokkurn tíma félli skuggi á. Fyrir vináttu ykkar, umhyggju og ást verð ég þakklát, svo lengi sem ég lifi.“

Agnes sagði ennfremur:

„Þegar þið byrjuðuð í þessum viðurstyggilega leðjuslag við Laufeyju og Carmen, þar sem aðalhvatamaður og leikstjóri er Aldís nokkur, svokölluð dóttir ykkar, kippir í þræði, eins og hentar, hjá Laufeyju og Carmen, ákvað ég, að ég myndi ekki koma nálægt þessum viðbjóði, vegna fyrrum trúnaðarsambands míns við Aldísi. Þeim trúnaði hefur verið aflétt nú, að mínu mati, vegna þess að hin „alheilbrigða Aldís“ rauf þann trúnað með óumræðilegum óþverraskap og lygum.“

Aldís spurði hvort hún mætti þakka dómaranum

Aldís Schram var hrærð af þakklæti eftir dómsuppkvaðninguna og spurði dómarann Ástráð Haraldsson hvort það mætti þakka honum fyrir. Hann sagði að það væri bannað.

Í samtali við blaðamann sagði Aldís að þakklæti væri það fyrsta sem kæmi upp í hugann. Hún lýsti yfir miklu þakklæti í garð lögmanns síns, Gunnars Inga Jóhannssonar, sem hefði sótt mál hennar af krafti. Hún var einnig þakklát dómaranum fyrir að hennar mati réttlátan dóm. „Mikið þakklæti til lögmanns míns, sómamannsins hans Gunnars Inga. Það er einstök upplifun að einhver taki upp hanskann fyrir mann. Það er ný upplifun fyrir mig og dásamleg.“

Aldís benti ennfremur á að málið snerist ekki um peninga heldur æru. Gunnar sagði aðspurður að niðurstaðan hefði ekki komið honum á óvart. „Dómurinn er í samræmi við væntingar. Við erum glöð að það var tekið undir allt í okkar málflutningi.“

Gunnar benti á að ekki mætti nota Metoo málstaðinn sem skálkaskjól. „Það má ekki nota þennan málstað sem skálkaskjól til að láta óviðurkvæmileg ummæli falla og nýta þann málstað til að réttlæta slíkt. Það kom skýrt fram í málflutningnum. Þetta mál á ekkert skylt við Metoo,“ sagði lögmaðurinn í samtali við DV.

„Það er ljótt að bera ljúgvitni gegn náunganum,“ sagði Aldís ennfremur.

Ósmekkleg og rætin ummæli

Dómurinn er mjög afgerandi en þar segir meðal annars:

„Fallast verður á það með stefnanda að öll ummælin eru sérstaklega ósmekkleg og móðgandi fyrir stefnanda, þau fela í sér hótun um ófarnað og auk þess ærumeiðandi aðdróttun um refsiverða háttsemi stefnanda.“

Þá segir ennfremur að framsetning ummælanna hafi verið sérlega rætin og því beri að dæma Agnesi til að greiða Aldísi miskabætur:

„Ekkert er fram komið í málinu sem getur réttlætt ummælin sem engum gögnum eða rökum eru studd. Stefnda ber því bótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna ummælanna. Stefnda hefur á engan hátt reynt að bera af sér nefnd ummæli og þvert á móti haldið því fram að þau séu sönn. Að þessu virtu og með hliðsjón af óvenjulega rætinni framsetningu ummælanna þykja miskabætur vera hæfilega ákveðnar eins og nánar greinir í dómsorði.“

 

Dóminn má lesa hér

 

Fréttin hefur verið uppfærð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan skoðar tengsl gluggagægja meðal sorphirðumanna og innbrota á Álftanesi

Lögreglan skoðar tengsl gluggagægja meðal sorphirðumanna og innbrota á Álftanesi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy tjáir sig um Pútín – „Ég held að þetta muni veikja hann mjög mikið“

Zelenskyy tjáir sig um Pútín – „Ég held að þetta muni veikja hann mjög mikið“