Fyrsta Crocs skóparið leit dagsins ljós árið 2001. Skórnir hafa því verið til í rúma tvo áratugi en lengst af hafa þeir þótt ljótari en flestir aðrir skór, þá er til dæmis yfirleitt að finna á listum yfir ljótustu skó sögunnar. En að undanförnu hefur orðið gífurlegur viðsnúningur og eru Crocs skór nú orðnir að tískuvöru. Segja má að skórnir hafi svo endanlega fengið uppreist æru þegar þeir lentu í einni helstu tískuverslun Íslands í gær, Húrra Reykjavík.
Þeir Scott Seaman, Lyndon „Duke“ Hanson og George Boedecker Jr. stofnuðu Crocs árið 2001. Fyrsta skóparið sem fyrirtækið framleiddi var kynnt á bátasýningu í Flórída ríki í Bandaríkjunum enda voru skórnir fyrst og fremst hannaðir fyrir bátsferðir. Það er ekki hægt að segja að skórnir hafi strax slegið í gegn. Á fyrsta framleiðsluárinu seldi fyrirtækið um 76 þúsund skópör en eftirspurnin átti þó eftir að aukast gífurlega á næstu árum. Árið 2006 var fyrirtækið farið að framleiða tæpar þrjár milljónir skópara á mánuði til að anna eftirspurninni.
Þrátt fyrir þessar miklu vinsældir skóparsins er ekki hægt að segja að það hafi verið álitið flott. Þetta voru miklu frekar praktískir og þægilegir skór heldur en eitthvað sem átti að vera töff.
Það brá því mörgum í brún þegar fyrirsætur á vegum spænska tískuhússins Balenciaga gengu um í Crocs skóm á tískusýningunni í París árið 2017. Í rauninni var fræjum endurreisnar Crocs skóna sáð á þessari tískusýningu. En eins og með flest fræ þá báru þessi ekki ávöxt um leið. Netverjar hugsuðu sér gott til glóðarinnar um leið og myndir fóru að birtast af fyrirsætunum í litríkum og upphækkuðum Crocs skóm. Enn á ný voru skórnir hafðir að háði og spotti en fæstir höfðu hugmynd um það sem átti eftir að gerast.
Balenciaga lét sér nefnilega ekki segjast og fór aftur í samstarf með Crocs nokkrum árum síðar, nánar tiltekið í fyrra. Þá fóru að birtast myndir á netinu af háhæluðum Crocs skóm og Crocs stígvélum. Með þessu seinna samstarfi varð fólki ljóst að tískuhúsið var ekkert að grínast árið 2017 og að Crocs skórnir væru komnir til að vera. Það er þó er ekki eins og pöpullinn hafi brunað um leið út í næstu búð og beðið um eitt stykki af Balenciaga x Crocs skóm. Samstarfið hafði þó þau áhrif að sum fóru að horfa á Crocs sem raunverulegan kost þegar kemur að vali á tískuskóm.
Fljótlega fór það að vera sífellt meira áberandi að sjá heimsfræga einstaklinga í Crocs skóm á almenningsfæri. Þá fóru ýmsar stjörnur í samstarf með fyrirtækinu. Má þar til dæmis nefna Justin Bieber, SZA, Bad Bunny, Post Malone og Ruby Rose.
Og almenningur fylgdi í kjölfarið.
Nú eru Crocs skórnir aftur orðnir eftirsóttir út um allan heim. Ísland er engin undantekning, en eins og áður segir eru skórnir nú lentir í Húrra Reykjavík. „Þetta er ótrúlegur viðsnúningur, ekki spurning. Þetta er eitthvað sem maður sá alls ekki fyrir,“ segir Sindri Snær Jensson, eigandi Húrra Reykjavík, í samtali við blaðamann.
„Ég átti von á einhverjum andmælum eða gagnrýni. Holar dropinn steininn? Eru Crocs ekki umdeildir lengur?“ spurði Sindri í færslu sem hann birti um skóna á Twitter-síðu sinni í gær. „Þetta þótti bara það ljótasta sem til er og svo einhvern veginn með markaðsstarfi, vöruþróun og öðru er Crocs bara orðin hátískuvara og er bara í samstarfi við ótrúlega mikið ef þekktum einstaklingum úti í heimi. Þeir eru komnir inn í ótrúlega flottar verslanir.“
Aðspurður um ástæðuna fyrir þessum vinsældum segir Sindri að það sé fyrst og fremst vöruþróun Crocs að þakka. „En vörumerkið er líka orðið ennþá skemmtilegra, þau eru með svona skraut á skóna, búin að stækka vöruúrvalið ennþá meira hvað varðar liti og týpur. Þau eru komin með hina og þessa sandala, skó með fóðri og allavegana, platform og háhæla – sumt af þessu er algjört „gimmick“, eitthvað svona skraut eða skemmtun en þetta ýtir undir vinsældirnar á öllu hinu. Þetta er bara magnaður viðsnúningur, langt síðan maður hefur séð svona hjá vörumerki.“
Sindri bendir á að samstarf með þekktum tískuhúsum sé leiðin sem mörg vörumerki eru að fara í dag. Óvenjuleg og ólíkleg samstörf eru alls ekkert einsdæmi, á síðustu árum hefur þvert á móti slíkt færst í aukana. Til dæmis má nefna samstarf Off White og IKEA, GAP og Yeezy, Vetements og DHL, Palace og Stella Artois, auk fleirri.
„Þetta er leiðin sem mörg vörumerki eru að fara í dag. Við sjáum einmitt að Crocs komst inn í þetta samstarf með Balenciaga, það smitast niður allan stigann, til allra hópa af viðskiptavinum, þegar þetta byrjar þarna efst,“ segir Sindri.
Þá segir Sindri að vöruúrvalið sé orðið mun meira hjá Crocs. „Það eru bara miklu fleiri litir og svo er þetta sem heitir „Jibbitz“ eða „charms“ sem við erum að fá núna. Þá er sem sagt Crocs með samstarfssamninga við Disney, Star Wars, Coca Cola, hina og þessa. Þetta er svona skraut sem þú setur í götin á skónum, þannig þú getur keypt alls konar skraut og skreytt skóna þína. Ég held að það hafi líka gert alveg heilmikið,“ segir hann.
Samkvæmt Sindra hafa viðtökurnar á skónum verið afar góðar, mikil sala hafi verið á þeim í Húrra Reykjavík í gær. „Bara á miðvikudegi, það var ekkert að gerast hérna, það var ekkert meira fólk í miðbænum eða eitthvað þannig, það var bara komið gagngert fyrir þessa skó,“ segir Sindri og bætir við að verðinu hafi verið stillt í hóf. „Bara 7.990, þeir eru að seljast á 50 dollara úti, þannig þetta er mjög svipað og gengur og gerist erlendis,“ segir hann.
„Maður finnur bara að það var einhver uppsafnaður áhugi og þörf hérna fyrir þessu.“