„Þið þurfið að fara rétt með ef þið eruð að skrifa fréttir um mig,“ segir Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri Frettin.is, en hún hafði samband vegna fréttar um að hún hefði neitað að bera grímu í flugi Icelandair til München á dögunum. Áfangastaðurinn var Úkraína þaðan sem Margrét ætlaði að skrifa fréttir um þjóðaratkvæðagreiðslur í héruðum Úkraínu um innlimun í Rússland. Margrét varð af ferðinni því henni var vísað frá borði og fór í lögreglufylgd út úr flugvélinni.
Margrét ætlar að stefna Icelandair vegna málsins og kæra flugfélagið til Samgöngustofu. Margrét harðneitar því að hafa ekki virt grímuskyldu. „Ég setti upp grímu um leið og mér var sagt að gera það en hún var ekki sjálf með grímu og þegar ég benti grímulausri konunni á það þá fauk í hana,“ segir Margrét. Hún bendir auk þess á að grímuskylda í flugi til Istanbul hafi verið runnin út þegar þetta var og séu þetta því mjög vandræðaleg mistök hjá Icelandair.
„Það var nú öll ógnin, að ég skyldi benda veslings konunni á að hún væri ekki með grímu. En þau tóku töskuna mína í gíslingu, sem var innifalin í þessum flugmiða. Þetta var dýr búnaður. Þau sögðu að taskan passaði ekki og það væri ekki pláss fyrir hana. Síðan þegar ég kem að sætinu mínu sé ég að þarna er pláss fyrir þrjár töskur. Ég er búin að ferðast um með þessar töskur um allan heim með alls konar lággjalda flugfélögum og þetta er minnsta gerðin af cabin-töskum. Þegar ég benti þeim á að það væri nóg pláss þá vísuðu þau mér frá borði.“
En hlýtur ekki að hafa orðið eitthvert uppnám eða æsingur fyrst Margréti var vísað frá borði? spyr blaðamaður.
„Ef það hefði orðiði uppnám og æsingur hefði ég verið flokkuð sem flugdólgur og þá hefði ég verið handtekin á staðnum. Núna er ég komin með lögregluskýrsluna sem sannar mitt mál. Það var ekkert uppnám og enginn æsingur.“
„Þetta mun allt koma fram fyrir dómstólum,“ segir Margrét ennfremur.