Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun til að ræða um tjón á bílaleigubílum í sambandi við ofsaveðrið sem gekk yfir landið um helgina, en þá tjónuðust margir bílar. Steingrímur greindi frá því í samtali við RÚV í gær að minnst tíu bílar bílaleigunnar hafi eyðilagst í storminum um helgina og í Bítinu í morgun sagði hann að um 15 bílar hefðu tjónast illa.
Greindi hann svo frá því að grunur væri á að ferðamenn hefðu virt að vettugi lokunarpósta Vegagerðarinnar.
Steingrímur sagði við RÚV í gær að hann ætti ekki von á því að fá tjónið bætt frá tryggingafélögum þar sem þeir bjóði ekki upp á tryggingar gegn foki á lausum jarðefnum.
Hann sagði í Bítinu í morgun að ekki sé enn búið að ná alveg utan um það tjón sem varð um helgina.
Aðspurður um hvar kostnaðurinn vegna tjónsins lendir segir Steingrímur að það lendi bæði á viðskiptavinum sem og bílaleigunni. Í tilvikum þar sem viðskiptavinir hafi keypt viðeigandi tryggingu fyrir foktjóni lendi kostnaðurinn alfarið á leigunni. En slík trygging tryggir fyrir ösku og sandfoki og hefur enga sjálfsábyrgð. Kostnaður er um fimm þúsund krónur fyrir hvern leigðan dag.
Altjón á bíl geti numið tveimur til þremur milljónum króna, en miðað er við að viðskiptavinir greiði ekki meira en milljón. Áætlar Steingrímur að kostnaður skiptist oftast svo að þriðjungur endar á viðskiptavini á meðan leigan tekur tvo þriðju tjónsins.
Erfitt geti svo verið að rukka viðskiptavininn þar sem engum finnist gaman, hvorki kúnna né starfsmönnum leigunnar, að rukka háar fjárhæðir eftir fárviðri.
Stundum séu viðskiptavinir tryggðir erlendis og fái þá tjónið bætt og þarf bílaleigan gjarnan að vera í samskiptum við tryggingafélög erlendi eða ferðaskrifstofurnar sem seldu ferðina hingað til lands.
„Reikningurinn sem viðskiptavinurinn þarf að borga getur verið 700-800 þúsund,“ sagði Steingrímur en bætti við að oftast þýði slíkt að mun hærri kostnaður endi á bílaleigunni sjálfri.
Steingrímur áætlar að um 30 prósent viðskiptavina kaupi trygginguna sem dekkar þetta tjón. Sem þýðir að 70 prósent gera það ekki. En einhverjir af þessum 70 prósentum hafi þá tryggingu sem dekki tjónið erlendis frá.
„Við reynum að vinna þetta eins mjúkt og hægt er því þetta er náttúrulega bara ömurlegt fyrir alla aðila, bæði þá sem lenda í þessu og svo okkur,“ sagði Steingrímur.