Brynjar Joensen Creed, 52 ára gamall fjölskyldufaðir og starfsmaður hjá þekktu heildsölufyrirtæki, var í gær dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir margvísleg kynferðisbrot, þar á meðal nauðganir, gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri.
DV hefur fjallað ítarlega um mál Brynjars undanfarið en það er mat héraðssaksóknara að um sé að ræða eitt af umfangsmestu kynferðisbrotamálum Íslandssögunnar.
RÚV greindi frá því í kvöldfréttum sjónvarps í gærkvöld að Brynjar væri grunaður um brot gegn 19 öðrum stúlkum. Þessi meintu brot eru til rannsóknar hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum og búast má fastlega við því að ákært verði í þessum málum. Ef haft er í huga að Brynjar var í gær sakfelldur í yfirgnæfandi meirihluta ákæruliða og vænta megi þess að sú saga endurtaki sig í hinum málunum, þá mætti sjá fyrir sér þrjá til fjóra sambærilega dóma yfir honum. Málið er þó ekki svo einfalt og mun ekki þróast á þann veg hvað varðar heildarrefsingu.
En hvað verður Brynjar dæmdur í langt fangelsi þegar upp er staðið?
Í bandarísku réttarfari er iðulega beitt einfaldri samlagningu þegar sami sakborningur er sakfelldur fyrir margar ákærur í fleiri en einum réttarhöldum. Sú regla gildir ekki á Íslandi. Hafa ber í huga að hér er ekki um að ræða ítrekaða brotasemi heldur höfðu öll brot verið framin þegar rannsókn mála hófst. Í íslensku réttarfari ríkir sú venja að dæma svokallaðan hegningarauka, en í honum felst að reiknað er út hvað sakborningurinn hefði fengið þunga refsingu ef öll málin gegn honum væru eitt og sama málið.
Hámarksrefsing fyrir kynferðisbrot í íslenskum lögum er 16 ára fangelsi. Til að sakborningur fá svo þunga refsingu þurfa brotin að innihalda nauðgun. Í gær var Brynjar þegar dæmdur fyrir tvær nauðganir auk annarra kynferðisbrota. Þyngstu kynferðisbrotadómar Íslandssögunnar til þessa eru tíu ára fangelsi. Tveir menn hafa hlotið slíka refsingu.
Þegar haft er í huga að mál Brynjars er talið vera eitt umfangsmesta kynferðisbrotamál sögunnar vaknar sú spurning hvort hann eigi eftir að hljóta þyngstu refsingu sem dæmd hefur verið fyrir kynferðisbrot og hvort refsiramminn, 16 ár, verði ef til vill nýttur til fulls. Langur tími getur liðið þar til þeirri spurningu hefur verið svarað því rannsókn stendur enn yfir í meirihluta mála gegn honum og á sumarmánuðum tekur að hægjast á starfsemi dómstólanna.